- Advertisement -

Hvað kostar krónan? Svar; mikið

Efnahagsmál Hvað kostar krónan íslenska þjóð? „Hún er okkur alveg gríðarlega dýr. Við sjáum að íslenski Seðlabankinn er með hæstu stýrivexti í heimi, allavega hinum vestræna. Það kostar okkur mjög mikla peninga. Sex prósent vaxtamunur er mikill. Heimilin skulda um tvö þúsund milljarða og fyrirtækin í landinu um þrjú þúsund milljarða, þetta eru fimm þúsund milljarðar sem hvíla á hagkerfinu og það eru neytendur, og að einhverju leyti útflutningur, sem borga þetta. Að mestu neytendur. Sex prósent af fimm þúsund milljörðum er einfaldlega þrjú hundruð milljarðar. Í vaxtamuninn fer sem nemur einum þriðja af launaútgjöldum fyrirtækjanna í landinu. Svo er því haldi fram að við séum með meira fullveldi og sjálfstæði með því að gera þetta. Ég sé ekki mikið frelsi í þessu fyrir hönd minna félagsmanna.“ Þetta sagði Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og forseti Alþýðusambands Íslands, fyrir skömmu.

Bjarni Janusson skrifar um þetta í Kjarnann. Hann segir: „Krónan er mesti óvinur íslenskra launamanna og heimila.“ Og hann sagði einnig: „Hátt vaxtastig á Íslandi hefur orðið til þess að fyrirtæki fjármagna sig í síauknum mæli í erlendri mynt. Atvinnulífið er með öðrum orðum á undanhaldi frá krónunni.“

Bjarni skrifar um verðtrygginguna og segir hana vera óhjákvæmilegan fylgifisk krónnunar. „Fólk treystir sér hins vegar ekki til þess að lána peninga hérlendis nema lánin séu verðtryggð eða með mjög háum vöxtum vegna þess að það er svo mikil sveifla í hagkerfinu. Það er því ólíklegt að mikill áhugi sé á að gera langtímasamninga í viðkomandi mynt án verðtryggingar. Það að dæma verðtryggingu ólöglega leysir ekki lánavanda heimilanna, lánavandinn mun einfaldlega breytast og ekki endilega til hins betra.“

Og svo þetta: „Til þess að Ísland haldist samkeppnishæft í framtíðinni verðum við að skipta krónunni út fyrir annan stöðugri gjald­miðil. Íslendingar geta ekki leyft frjálsa för fjármagns, fylgt sjálfstæðri peningastefnu og um leið viðhaldið stöðugu gengi. Flestir Íslendingar halda reyndar í þá trú að þetta sé mögulegt. Það er hins vegar ekkert nema tálsýn. Þegar öllu er á botninn hvolft er það því ekki spurning um hvort heldur hvenær við munum taka hér upp nýjan og stöðugri gjaldmiðil.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjá grein Bjarna Janussonar hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: