Segir Íslendinga verða hugsanlega aðeins um eitt hundrað þúsund eftir 90 ár
„Þetta er mjög djúpstæður andlegur samfélagslegur vandi og ég held að núna sé brýnt að stjórnvöld taki þetta mjög alvarlega og við förum í aðgerðir…“
Snorri Másson.

„Nú er maður nýkominn aftur úr stuttu barneignarleyfi þar sem okkur hjónum fæddist okkar þriðja barn á Landspítalanum í apríl. Þar er maður alltaf auðvitað djúpt snortinn þakklæti gagnvart þeim einstöku konum sem halda uppi fæðingarþjónustunni. Þetta eru auðvitað einkum konur. Stjórnmálamanninum í manni verður það á að hugsa að miðað við hvað við höfum allt til alls þarna, miðað við hvað aðstæðurnar eru góðar þá erum við ekki að nýta þetta kannski alveg nógu vel. Ég veit ekki hvort þær væru sammála mér, það er auðvitað mikið að gera, en við erum ekki að fæða nógu mikið af börnum. 1,53 börn á hverja konu er mælingin sem við fáum núna og við þurfum 2,1 barn til þess að við viðhöldum okkur. Þannig að við erum ekki bara að skreppa saman, við erum í raun hálfpartinn að deyja út ef við tökum svo strangt til orða,“ sagði Snorri Másson þingmaður Miðflokksins.
„Það eru margar leiðir til að leggja mat á þetta fram og til baka. Við erum auðvitað með innflytjendur, þeir ýmist koma og fara eða setjast að, en ef við tökum innfæddu Íslendingana 330.000 þá sýna mínir útreikningar mér að eftir 90 ár af óbreyttri fæðingartíðni verðum við orðnir 200.000 Íslendingar. Ef fæðingartíðni lækkar áfram niður í 1,1, sem hún hefur sannarlega gert sums staðar, þá endum við nálægt 100.000 manns eftir bara 90 ár og þá verður þetta barn sem ég var að eignast vonandi enn þá á lífi,“ sagði Snorri.
„…vil ég beina því til þeirra að láta verða af þessu.“
„Þannig að þetta er ekki lengra frá okkur en það og þetta er sannarlega miklu alvarlegra vandamál en svo að við getum bara svona grínast með þetta. Þetta er mjög djúpstæður andlegur samfélagslegur vandi og ég held að núna sé brýnt að stjórnvöld taki þetta mjög alvarlega og við förum í aðgerðir sem eru kannski ólíkar þeim sem — við höfum alltaf verið að stilla fram og til baka þessa hvata sem við erum með en ég vil að við skoðum það alvarlega að fara í nýjar fjölbreyttari og kannski táknrænni aðgerðir, hvort sem það er skattafsláttur eða eitthvað annað, eitthvað sem sendir skilaboð inn í umræðuna um að barneignir séu málið. Þannig að mín skilaboð til stjórnvalda væru þau að setja þetta mál í forgang. Mér finnst tónninn ekki vera þannig frá þeim að þau taki þetta sérstaklega alvarlega. Ég hef ekki heyrt mikla umræðu um þetta. En síðan, fyrst maður er hérna í ræðustól, þá er þetta ekki bara á ábyrgð stjórnvalda og síst af öllu, ég held að þau ráði ekki öllu um þetta, þetta er líka á ábyrgð fólksins í landinu, mögulegra kandídata í foreldrahlutverkið, vil ég beina því til þeirra að láta verða af þessu. Það er ekki eftir neinu að bíða og þetta er ekkert svo mikið vesen þótt þetta sé svo sannarlega vesen.“