- Advertisement -

Karlar hrifnari af fiski

Matarmenning Fiskneysla Íslendinga hefur verið svipuð það sem af er þessari öld. Sé hins vegar litið lengra aftur í tímann, er fiskneyslan samt frekar lítil.  Í könnun um mataræði Íslendinga frá árinu 2002 var neyslan um 40 grömm á mann að meðaltali, en 46 grömm í könnun frá 2010/2011 og telst það ekki marktæk breyting. Frá árinu 1990 hefurfiskneyslan hins vegar dregist saman um 30% og er nú litlu meira en gengur og gerist í mörgum nágrannalöndum.

Þetta kemur fram í könnunum frá embætti landlæknis.  Í báðum könnunum kemur fram að karlmenn borða mun meira af fiski en konur eða 55 grömm að meðaltali á dag en konurnar 38 grömm, enda hafa þeir meiri orkuþörf og borða þess vegna almenn meira en konur. Elstu karlarnir, 61 til 80 ára borða 70 grömm að meðaltali en elstu konurnar 57 grömm. Loks má benda á að karlar borða meira en tvöfalt meira af harðfiski en konur og konur á aldrinum 18 til 30 ára virðast ekki líta við harðfiskinum.
Þá má nefna að engar marktækar breytingar hafa orðið á fiskneyslu fólks við efnahagshrunið. Nánast jafnmikið er borðað af fiski fyrir og eftir hrun.  Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er lagt til að fólk borði að minnsta kosti tvær fiskmáltíðir í viku, en aðeins helmingur þátttakenda í síðari könnuninni náði því marki.
Meira kjör en minn fiskur
Neysla á fiski hefur lítið breyst frá síðustu könnun. Meðalneysla samsvarar nú 46 grömmum á dag eða 322 grömmum á viku. Ef miðað er við algengan skammt af fiski (150 grömm), þá ætti vikuleg neysla fisks að samsvara 300 grömmum af fiski í það minnsta. Konur á aldrinum 18-30 ára borða aðeins 26 grömm af fiski á dag að meðaltali sem samsvarar einni fiskmáltíð á sex daga fresti.
Heildarneysla á kjöti jókst á milli kannana. Mest varð aukningin í neyslu fuglakjöts (84%). Neysla á öðru kjöti jókst einnig, að farsvörum undanskildum, en neysla á þeim hefur dregist saman frá árinu 2002.
Minni munur á fæði yngri og eldri
Þrátt fyrir að kynslóðatengdur munur í neyslu fæðutegunda hafi minnkað frá því í könnuninni 2002 er mataræði ungs fólks og þeirra sem eldri eru ólíkt að mörgu leyti. Á þetta sérstaklega við um fæðutegundir eins og fisk, pasta, franskar kartöflur, gos, sykraðar mjólkurvörur og pítsu. Ungt fólk á aldrinum 18-30 ára borðar þrisvar sinnum meira af pasta, frönskum kartöflum og sykruðum mjólkurvörum heldur en þeir elstu (61-80 ára), sjö sinnum meira af pítsu, drekka tæplega þrisvar sinnum meira af bjór, fimm sinnum meira af sykruðu gosi og tíu sinnum meira af prótein- og megrunardrykkjum. Eldra fólkið borðar tvisvar sinnum meira af fiski en unga fólkið, fjórum sinnum meira af innmat og drekkur fjórum sinnum meira af te. Fólk á aldrinum 31-60 ára drekkur rúmlega þrisvar sinnum meira af kaffi en þeir sem eru 18-30 ára og tæplega þrisvar sinnum meira af borðvíni.

(Úr Útvegsblaðinu)


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: