- Advertisement -

Lagði embætti skattrannsóknarstjóra niður til að losna við Bryndísi

En hvers vegna styðja þingmenn VG og Framsóknar þetta frumvarp?

Gunnar Smári skrifar:

Bryndís Kristjánsdóttir hefur staðið sig vel sem skattrannsóknarstjóri, sýnt ákveðið sjálfstæði þrátt fyrir að starfa undir svipu Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, sem notar fjárveitingar til að veikja þær stofnanir sem honum finnst þrengja að athafnafrelsi hinna ríku og valdamiklu. Þegar þær aðferðir virkuðu ekki nógu vel, m.a. vegna mikils stuðnings almennings við skattrannsóknir, ekki síst á grunni leka í Panamaskjölum og víðar; ákvað Bjarni að leggja embættið niður til að losna við Bryndísi.

Nú er fyrir Alþingi frumvarp um að fella skattrannsókn undir embætti héraðssaksóknara. Þar er fyrir Ólafur Þór Hauksson, fyrrum sérstakur saksóknari í Hrunmálum. Ólafur fékk að kenna á Bjarna 2013 þegar Bjarni komst í fjármálaráðuneytið í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Þá skar Bjarni niður framlög til embættis sérstaks saksóknar, sem leiddi til þess að embættið lamaðist og gat ekki hafið neinar nýjar rannsóknir, varla klárað þau mál sem voru á lokastigi. Þetta kenndi Ólafi lexíu, sem sést m.a. á því að hann kvartar ekki þótt framlög til embættis héraðssaksóknara séu svo lítil að það ræður ekki við Samherjamálið. Rannsókn þeirra mála er á fullu í Namibíu og komin á skrið í Færeyjum. En lexían sem Ólafur lærði er: Þú mátt rannsaka sumt en annað alls ekki.

Þess vegna vill hann veikja skattrannsóknir.

Nú ræður þingheimur um hefndarför Bjarna gegn Bryndísi, eins og þar sé eitthvað allt annað á ferðinni, jafnvel réttarbót. Því miður er þingheimur svo sveigður undir vald og vilja Bjarna og auðvaldsins, að þar er enginn þingmaður sem getur rætt um það sem þetta mál sem það er; aðgerð skattsvikara til að draga úr rannsóknum á skattsvikum.

Þjóðinni hefur tekist að verja suma opinbera starfsmenn fyrir hefndum auðvaldsins, eins og t.d. Helga Seljan með því að kjósa hann sjónvarpsmann ársins öll ár. En auðvaldið hefur biðlund, það veit að það sigrar ætíð á endanum í samfélagi sem er algjörlega sniðið að þörfum þess, vilja og hagsmunum. Á endanum missa allir opinberir starfsmenn vinnuna sem ekki beygja sig undir vald auðvaldsins. Og fyrir þetta fólk tekur við löng eyðimerkurganga, það fær hvergi vinnu vegna þess að það er sagt umdeilt, sem á Íslandi er nafngift yfir þau sem hafa fengið útlegðardóm frá Valhöll.

Svona verður þetta svo lengi sem við berum auðvaldið til valda. Og greiðum atkvæði okkar til forystu flokka, sem bera auðvaldsflokkana til valda. Víðtækar og öflugar skattrannsóknir, sem einkum beinast að allra ríkasta fólkinu, eru eitt mesta hagsmunamál almennings. Við getum sótt þangað marga marga tugi milljarða króna. Þetta vita allir. Og Bjarni Benediktsson manna best. Í ætt hans eru mörg dæmi um skattsvik, ekki bara þau sem snúa að honum sjálfum. Þess vegna vill hann veikja skattrannsóknir. Hann er keyrður áfram af hagsmunum auðvaldsins, sem bætir við auð sinn fyrst og fremst á kostnað almennings.

En hvers vegna styðja þingmenn VG og Framsóknar þetta frumvarp? Að veikja skattrannsóknir og berja á sama tíma niður einn örfárra opinbera starfsmanna sem beygja sig ekki lúpulega undir vönd auðvaldsins? Mikil er skömm þessara flokka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: