- Advertisement -

Látum fólk lifa við hungurmörk

Alþingi „Ef það er eitthvað sem við erum léleg í er það að innheimta gjöld fyrir auðlindir okkar. Við sjáum hvernig álfyrirtækin hafa verið að flytja út í skjóli ýmissa laga arðinn af raforkuauðlind okkar. Við framleiðum yfir 18 þúsund gígavattsstundir af rafmagni og það fara um 4 þúsund af þeim í íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning. Hitt fer allt í stóriðju. Hvað fáum við fyrir það? Svo fyrir utan allt annað og auðlindirnar sem við fáum lítið af, eru skattsvik hér á Íslandi talin nema um 80 milljörðum. Hvað erum við að gera í því? Reynum við að ná því til baka? Reynum við að laga það?“

Þannig talaði þingmaðurinn Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð á Alþingi í gær þegar fjáraukalög voru á dagskrá.

Hann hélt áfram og sagði: „ Ég las frétt um það í haust að Íslendingar ættu á bankareikningum í Tortóla 35 milljarða, allt saman fé sem hefur verið stolið frá almenningi á Íslandi. Skotið undan skatti. Hvers konar samfélag er það sem lætur svona viðgangast? Af hverju einhendum við okkur ekki í það að laga þetta? Af hverju erum við að rífast um það dögum saman hvort leggja eigi niður Þróunarsamvinnustofnun, stofnun sem er rekin gríðarlega vel og er ein af stofnunum ríkisins sem hægt er að vera stoltur af? Við eyðum dögum í það í stað þess að vinna í því hvernig við getum bætt íslenskt samfélag, náð í meiri peninga til að reka samfélagið og sameiginlega sjóði, efla samfélagskennd Íslendinga. Hún er ekki á háu stigi, því miður, ég ætla að leyfa mér að segja það, virðulegi forseti. Samfélagskennd okkar mætti vera á hærra stigi og hvernig við viljum skipta fjármunum sem við öflum og eigum saman. Við eigum þetta allt saman saman. Eða alla vega stendur það á blaði að auðlindirnar séu eign okkar. Þá er ekki nema sjálfsagt að við fáum arðinn af þeim, fáum sanngjarna rentu til að hægt sé að reka gott samfélag þar sem enginn líður skort. Við erum 330 þúsund manneskjur. Það er eiginlega skammarlegt hvernig við komum fram við þetta fólk og látum það lifa nánast við hungurmörk.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: