- Advertisement -

Leiðsögumaður í Reynisfjöru: „Ekkert sem segir á þessum skiltum hvar hættulegustu svæðin eru“

Margir furða sig mjög á því að þrátt fyrir 3ja ára vinnu liggi ekki enn fyrir áhættumat fyrir Reynisfjöru.

Álitið er að með slíku mati væri unnt að loka fjörunni þegar hættan er mest.

Aðstæður í Reynisfjöru eru hættulegri en oft áður og sjórinn hefur fært sandinn til, þannig að brattur bakki hefur myndast við stuðlabergshellinn í fjörunni og því erfiðara fyrir fólk að forða sér á hlaupum undan öldunum.

Eins og áður hefur komið fram lést maður á þessum slóðum í fjörunni á föstudag; þegar alda hreif hann með sér á haf út.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Leiðsögumenn sem fara með hópa í Reynisfjöru brýna mjög fyrir sínu fólki að fara með mikilli gát í fjörunni, en meirihluti þeirra sem þangað kemur er á eigin vegum.

Þykir mjög slæmt að ekkert skilti sýni hættulegasta staðinn í fjörunni.

„Það eru skilti hérna, að minnsta kosti tvö að aðkomunni hingað inn, þar sem hægt er útskýra hættuna fyrir ferðamanninum. Sérstaklega þegar er komið hérna á þetta svæði og er verið að fara fyrir hornið, þar er hættulegasta svæði. Það er ekkert sem segir til á þessum skiltum hvar hættulegustu svæðin eru. Þannig að fólk sem er hérna á eigin vegum það skiljanlega veit ekki hættuna og veður hérna út í og á ekkert von á þessum stóru öldum sem koma annað slagið,“ sagði Jón Þór Þórisson leiðsögumaður í samtali við RÚV.

Hrafnhildur Faulk leiðsögumaður telur „að merkingar og girðingar bara nái ákveðið langt. Það eru merkingar, þær eru ágætar en fólk er ekkert endilega að horfa á þær. Það er eins og fólk fái upplýsingarnar en það meðtekur þær ekki almennilega, trúir hreinlega ekki að þetta sé svona hættulegt. Ég held að það væri betri lausn að vera bara með verði, strandverði. Alveg eins og við erum með sundlaugarverði. Erlendis eru strandverðir.“

Ekki er ólíklegt ef af því verður að fá strandverði til að halda fólki frá flæðarmálinu þyrfti líklega þrjá til fjóra þannig verði.

Landeigendur á svæðinu hafa stungið upp á því að gerður verði stór útsýnispallur þannig að ferðamenn færu ekki út fyrir hann.

Þá benti framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Jóhannes Þór Skúlason, á það í færslu á Facebook að samtökin söfnuðu nú fyrir björgunartækjum, björgunarbáti og fjarstýrðum bjarghringjum til að hafa í Reynisfjöru.

Um það bil þrjú ár eru liðin síðan vinna við áhættumat hófst; þá ákvað þáverandi ferðamálaráðherra að gert yrði áhættumat fyrir Reynisfjöru.

Verkefni þetta átti að vera í höndum lögreglunnar á Suðurlandi í samstarfi við Vegagerðina, Veðurstofuna og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Hugmyndin var sú að Veðurstofan mynda sinna eftirlitinu og þegar viðvörun væri gefin út gætu yfirvöld lokað fjörunni.

Lítið hefur bólað á fyrrnefndu áhættumati og eru margir áhyggjufullir vegna þess í ljósi þess að fimm manneskjur hafa týnt lífinu í Reynisfjöru á síðustu sjö árum – og oft hefur hurð skollið nærri hælum, og greinilegt að eitthvaðverður að gerast og það hratt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: