- Advertisement -

Mælingar á transfitusýrum í matvælum

Neytendur Senn eru liðin fimm ár frá setningu hámarksgilda fyrir transfitu í mat. Lóst er að bæði matvælaframleiðendur og innflytjendur hafa þurft að aðlagast þessum kröfum. Matvælastofnun hefur nú hafið verkefni til að kanna stöðuna hvað varðar transfitusýrur í vörum á markaði hér á landi og verða endanlegar niðurstöður birtar á næsta ári.

Matvörur voru valdar til sýnatöku og mælinga bæði þvert yfir markaðinn til að fá breytileika og einnig var augum beint að vörum sem geta innihaldið transfitusýrur út frá niðurstöðum fyrri greininga eða á grundvelli upplýsinga í innihaldslýsingu. Tekin verða alls um 20 sýni af matvælum sem innihalda jurtafitur, steikt  eða bökuð, s.s. snakk, popp, kex, bökunarvörur, súkkulaði, ís, sósur, smjörlíki og fleira.

Rannsóknastofa Matís ohf framkvæmir fitusýrugreiningarnar, en sýnin eru flest tekin af Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna sem fer með eftirlit með innflytjendum og matvælafyrirtækjum, öðrum en þeim sem eru í frumframleiðslu dýraafurða. Sýnatökurnar standa nú yfir, en niðurstöður eru væntanlegar á fyrsta ársfjórðungi 2016.

Sambærilegt verkefni var framkvæmt á árunum 2008-2009, þ.e. áður en reglur voru settar, í samvinnu við Landlæknisembættið og Matís ohf og má finna niðurstöður úr því hér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvað eru transfitusýrur?

Transfitusýrur myndast þegar ómettuð jurtaolía er hert að hluta. Herðing olíu er aðferð sem notuð er í matvælaiðnaði til að gera fitu harðari þannig að vörurnar fái ákveðna eiginleika s.s. að lengja geymsluþol matvara og breyta áferð og bræðslumarki fitunnar. Transfitusýrur myndast einnig á náttúrulegan hátt í vömb jórturdýra, þegar örverur sem þar er að finna breyta ómettaðri fitu í transfitusýrur.  Því eru dýraafurðir eins og kjöt og mjólk undanskilin ákvæðum reglugerðarinnar. Að lokum geta transfitusýrur myndast þegar olía er hituð við mjög háan hita. Transfitusýrur myndast hins vegar ekki þegar olía er fullhert heldur inniheldur olían þá eingöngu mettaðar fitusýrur.

Leiðir til að draga úr magni transfitusýra

Þegar innihaldslýsingar matvæla eru skoðaðar má sjá að í stað hertrar jurtaolíu er nú notuð náttúrulega hörð jurtafita í mun meira mæli en var fyrir fimm árum. Pálmakjarnafeiti og kókosfeiti eru meðal þeirra tegunda harðrar jurtafitu sem mest eru notaðar af matvælaframleiðendum  í dag og hefur notkun þeirra aukist verulega. Flestar gerðir smjörlíkis eru nú úr harðri jurtafeiti í bland við jurtaolíu í stað hertrar jurtaolíu sem var allsráðandi í smjörlíki og viðbiti fyrir setningu reglugerðarinnar. Í einhverjum tilvikum eru notaðar fljótandi olíur í stað hertrar og einnig er óhert jurtaolía notuð í bland við fullherta eða náttúrulega harða jurtafitu til að fá þá notkunareiginleika sem óskað er eftir án þess að transfitusýrur fylgi.

Sjá einnig hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: