Fyrir mér er þessi pólarísering sem birtist í þessum hræðilegu atburðum í Bandaríkjunum og teygir anga sína víðar, líka í orðræðu hér á landi.
Halla Hrund Logadóttir.

„Heimurinn varð fátækari um helgina þegar fyrrum bekkjarsystir mín, Melissa Hortman, og maðurinn hennar voru myrt í Bandaríkjunum. Melissa var ein af 70 manneskjum sem morðinginn hafði á ákveðnum lista yfir stjórnmálamenn sem hann var málefnalega ósammála — málefnalega ósammála. Melissa var glaðlynd. Hún var algerlega hrokalaus. Hún var hlý. Hún hafði mikla ástríðu fyrir sínu samfélagi. Hún var ein af mínum fyrirmyndum í stjórnmálum því að henni tókst einhvern veginn að sameina það að geta verið hlýr, fastur fyrir, talað fyrir þeim sem minna mega sín og haft langtímasýn,“ sagði Halla Hrund Logadóttir Framsóknarflokki á Alþingi í gær.
„Við deildum áhuga á orkumálum. Hún var einn af höfundum orkulöggjafar Minnesota-ríkis þegar kom að sólarorku. Hún studdi við framtakið Stelpur styðja stelpur og hafði gert mikilvægar breytingar á fæðingarorlofi og frelsi kvenna í löggjöf. Hún var þekkt fyrir að ná árangri í gegnum samstöðu. Hún var þekkt fyrir að geta byggt brýr og dregið fólk saman og síðasta dæmið þar, þar sem hún var að reyna að ná árangri ofar því að vera bara að hugsa um sína kjósendur, var daginn áður en hún var myrt en þá greiddi hún atkvæði með fjárlagafrumvarpi Repúblikana til að koma í veg fyrir að Minnesota-ríki færi í þrot. Það var þannig stjórnmálamaður sem hún var og blessuð sé minning hennar.
Við erum ekki hér til að forðast ágreining.
Fyrir mér er þessi pólarísering sem birtist í þessum hræðilegu atburðum í Bandaríkjunum og teygir anga sína víðar, líka í orðræðu hér á landi, dæmi um að það er mikilvægt fyrir okkur, okkur stjórnmálamenn, að teygja okkur yfir ganginn, að vinna saman að málamiðlunum, að hlusta á mótmæli ólíkra hópa, að taka orðræðuna alvarlega án þess að tala niður sjónarmið eða upplifun fólks, sýna að við getum verið ósammála en samt fundið leiðir í gegnum samvinnu, hlustun og samtal.
Mig langar að segja að þegar Melissa tók við sem leiðtogi Demókrata á þingi Minnesota þá sagði hún: Við erum ekki hér til að forðast ágreining. Við erum hér til að eiga í ágreiningi. Það er mikilvægur hluti af lýðræðisferlinu. En ef við getum tekist á með því að halda samt í góðan anda og auðmýkt þá mun okkur vegna betur og þá mun ríkinu ganga betur.
Höfum slík orð hugföst þegar við reynum að ná lendingu hér í þinginu. Á meðan samvinna og málamiðlanir skila kannski minni skrefum fyrir árangur og markmið einstakra flokka þá skilar slíkt oft samhentara þjóðfélagi og það er mikið virði í því,“ sagði Halla Hrund Logadóttir alþingismaður.