Dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigriður Gunnlaugsdóttir hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbennslu
Í breytingunum er að finna gjaldtöku fyrir að geyma lík í líkhúsi kirkjugarða.
„Lagt er til að þeim kirkjugörðum sem starfrækja líkhús verði heimilt að innheimta gjald sem leggst á dánarbú eða aðstandendur látinna fyrir geymslu líka til að standa undir kostnaði sem hlýst af geymslu þeirra. Kirkjugörðum er ekki skylt samkvæmt lögum að hafa yfir líkhúsi að ráða og er því rekstur líkhúsa ekki hluti af lögbundinni starfsemi kirkjugarða.
Kirkjugarðar sem koma sér upp líkhúsi þurfa eðlilega að hafa eftirlit og umsjón með rekstrinum. Ákveðin aðstaða, tæki og áhöld þurfa jafnframt að vera til staðar. Þykir rétt að kirkjugörðum sé heimilt að taka gjald fyrir þann kostnað sem hlýst af rekstri líkhúsa og umsjón og eftirliti með þeim. Þjónustugjald sem kirkjugarður innheimtir fyrir geymslu líka mun renna óskipt til reksturs líkhússins.“
Hér er meira:
„Í umsögn Sorgarmiðstöðvarinnar kemur m.a. fram að ekki verði annað séð en að kirkjugarðar sem reki líkhús fái lagalega heimild til að reikna inn í væntanlegt líkhúsgjald allan kostnað sem hlýst af rekstri líkhússins. Verði ekki annað ráðið en að í raun sé um skattlagningu á dánarbúum að ræða til reksturs líkhúsa, en ekki þjónustugjald fyrir að geyma lík um tiltekin tíma. Þá skorar Sorgarmiðstöðin á dómsmálaráðherra að falla frá umræddu frumvarpi en tryggja þess í stað tímabundið framlag úr ríkissjóði til þeirra kirkjugarða sem reka fullbúin líkhús. Jafnframt áréttar Sorgarmiðstöðin að kostnaður vegna útfarar reynist mörgum aðstandendum svo þungur að ekki sé á bætandi og skattlagning þar á ofan vegna reksturs líkhúsa komi ekki til greina.“