- Advertisement -

Nýfrjálshyggjan er menningarlegt hrun sem við verðum að bregðast við

Hér heima hefur skólakerfið verið á nákvæmlega sömu leið og á Bretlandi.

Gunnar Smári skrifar:

Þriðjungur kennara á Bretlandseyjum stefnir að þvi að hætta kennslu innan fimm ára. Ástæða? Hana má draga saman í skemmdaverk nýfrjálshyggjuáranna sem lýsir sér í vanfjármögnuðu skólakerfi og vanvirðingu við kennara sem manneskjur og fagfólk. Það er einkenni stjórnsýslu nýfrjálshyggjuáranna að vald var flutt frá fagstéttum yfir til þeirra sem fóru með fjármál, öll áhersla var lögð á hagræðingu sem ætíð fólst í auknu vinnuálagi og minna frelsi kennara. Helmingur kennara kvartar yfir virðingarleysi og vinnuálagi, þriðjungur yfir ábyrgð en aðeins fjórðungur yfir laununum. Það er andmannúð og virðingarleysi nýfrjálshyggjunnar sem er brjóta kerfið og stéttina niður, eitthvað sem er fólki mikilvægara en krónur og aurar. Og undanfarið ár hefur afhjúpað ástandið í skólunum eins og skaðsemi nýfrjálshyggjunnar almennt.

Hér heima hefur skólakerfið verið á nákvæmlega sömu leið og á Bretlandi. Á nýfrjálshyggjuárunum, frá myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks árið 1991, hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með menntamál í 75% tímans, þar af fyrstu tæplega átján árin í striklotu. Íhaldsflokkurinn breski hefur verið fyrirmynd Sjálfstæðisflokksins í flestu síðan á tímum Margaret Thacher og ekki síst í niðurbroti opinberar þjónustu undir járnhnefa fjárveitingavaldsins, að flytja inn í hana það sem flokkurinn telur vera lögmál fyrirtækjareksturs; að eina markmiðið skuli vera betri nýting fjármuna og þar af leiðandi geti maðurinn með budduna stjórnað flóknum kerfum á borð við menntakerfið með sáraeinföldum aðferðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þær línur sem Björn Bjarnason og félagar lögðu á fyrri hluta nýfrjálshyggjutímans eru enn ríkjandi.

Fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn hafa Katrín Jakobsdóttir VG og Lilja Alfreðsdóttir xB verið í menntamálaráðuneytinu á þessu tímabili. Þær hafa lítinn ef nokkurn svip sett á kerfið, þær línur sem Björn Bjarnason og félagar lögðu á fyrri hluta nýfrjálshyggjutímans eru enn ríkjandi; stíf fjármálastjórn og próf sem notuð eru til að berja á kennurum. Niðurstaðan er ómanneskjulegt kerfi sem þjónar hvorki nemendum né kennurum.

Og ekki heldur atvinnulífinu, þótt það sé eitt af inntaki menntastefnu nýfrjálshyggjunnar; að skólar séu til að framleiða vinnuafl fyrir hina háheilögu fyrirtækjaeigendur, sem taldir eru eini drifkraftur samfélagsins. Það vitlausasta sem hægt er að gera er að aðlaga menntakerfið að hugmyndum eigenda arðsækinna kapítalískra fyrirtækja um menntun, samfélagið og virkni þess. Það er nánast banvæn hugmynd, eitur. Afleiðingin er sú að þau sem geta flýja kerfið. Nemendurnir sitja hins vegar eftir. Í soðinu af viðbrenndum delluhugmyndum nýfrjálshyggjunnar.

Nýfrjálshyggjan er siðfall, menningarlegt hrun sem við verðum að bregðast við. Með því að skrúfa ofan af þessum delluhugmyndum þar til engar leyfar þeirra eru eftir. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta kerfi sem við bjuggum til, sum með verkum okkar en önnur með aðgerðarleysi. Og við getum því haft þetta allt öðruvísi og betra, getum byggt upp frábæra skóla með glöðum kennurum og kátum krökkum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: