- Advertisement -

Pólitískur harmleikur Vinstri grænna

Gunnar Smári skrifar:

Greiðslan sem VG fær fyrir æru sína er svo lág og skammvinn að það er ekki annað hægt en gráta yfir þessu. Þetta getur ekki endað nema sem mestur harmleikur íslenskrar stjórnmálasögu.

Lærdómurinn er að flokkar með rætur í sósíalískri stéttabaráttu síðustu aldar eiga að taka völdin af auðvaldinu, ekki að vinna með því og framlengja drottnunarstöðu þess í samfélaginu. Fólk kýs vinstrið til að losna við hægrið. Og öfugt, reyndar. En í samfélagið sem er sundurétið af nýfrjálshyggju og auðmannaþjónkun er skaðinn minni fyrir hægrið að vinna með vinstrinu, þar sem allir hafa neitunarvald þá merkir óbreytt ástand áframhaldandi völd auðvaldsins. Samstarf við vinstrið veldur Sjálfstæðisflokknum kláða, ertingu. Samstarf við hægri er fleygur í hjartað fyrir VG.

Sósíaldemókratar fóru í ríkisstjórn með kristilegum demókrötum, mynduðu það sem kallað hefur verið Grand coalition, ríkisstjórn þvert á flokkslínur. Þá voru flokkarnir jafnir að stærð, sósíaldemókratarnir með 34% en kristilegir með 35%. Nú mælast Sósíaldemókratarnir með 16-18% fylgi en kristilegir 28-35%. Sósíaldemókratar, annar af burðarstólpum þýskra stjórnmála eftir nasismann, hafa helmingað sig á altari Grand coalition, samstarfi við hægrið á nýfrjálshyggjutíma. Frá haustinu 2018 hafa Græningjar mælst með meira fylgi en Sósíaldemókratar.

Þegar Sósíaldemókratar á Ítalíu mynduðu stjórn með hægriflokkum Berlosconi 2013 af ótta við uppgang Fimm stjörnu hreyfingarinnar töldu þeir sig vera að bjarga Ítalíu frá popúlisma, verja það sem eftir var af hefðbundnum stjórnmálum (líklega hafa þeir talað um pólitískan stöðugleika). Eftir kosningarnar 2013 fengu það sem kalla mætti hefðbundin ítölsk stjórnmál eftir fall kristilegra demókrata fyrir aldamót um 70% atkvæða. Í dag er þrír stærstu popúlísku flokkarnir, Lega Salvinis og Bræður Ítalíu samanlagt með um 60% fylgi í könnunum. Og restin er ekki bara gömlu stjórnmálin, heldur líka alls konar nýir flokkar; svo hefðbundnu stjórnmálin, sem sósíaldemókratar töldu sig vera að verja 2013, eru nánast jaðarfyrirbrigði í ítölskum stjórnmálum í dag. Frá sjónarhóli þeirra er Ítalía fallin. Nú er þeim framlengt með næstum þjóðstjórn en fram undan eru kosningar og líkast til endalok eftirstríðsárastjórnmála Ítalíu, endalok sem reyndar hafa nú staðið yfir í rúman aldarfjórðung frá hruni Kristilegra demókrata undan spillingu.

Í Hollandi voru margar fjólubláar stjórnir, frá 1989 og fram eftir tíunda áratugnum, ýmist undir forystu hægri manna eða sósíaldemókrata. Fyrst mynduðu sósíaldemókratar stjórn með kristilegum demókrötum og síðan með Lýðræðislega frelsisflokknum. Til að gera langa sögu stutta fengu sósíaldemókratar 32% atkvæða 1989 en tæp 6% í kosningunum um daginn. Þetta fyrrum burðarvirki hollenskra stjórnmála er að hverfa. Hann byggðist upp sem skýr valkostur um þróun samfélagsins en drap sig á vörn um hefðbundin stjórnmál, svokallaðan stjórnmálalegan stöðugleika, sem er auðvitað ekkert annað en vörn elítustjórnmálanna á tímum pólitískrar deiglu; tilraun þeirra til að kæfa kröfur almennings um breytingar og nýja stefnu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: