- Advertisement -

Prófessor Gylfi hengir bakara fyrir smið

Marinó G. Njálsson segir að Gylfi Zoega, hagfræðingur og nefndarmaður í  peningastefnunefnd, kemur stundum með skemmtilegar, en um leið illskiljanlegar, greiningar á stöðu mála á Íslandi. 

„Hann sagði greinina hafi verið laskaða áður en Covid skall á. Já, það er rétt, en hvers vegna skyldi það hafa verið? Maður hefði haldið að hagfræðiprófessor og peningastefnunefndarmaður hefði vitað hvernig stóð á því. Svo ég útskýri það enn einu sinni, þá ákvað Seðlabankinn fyrir tæpum 5 árum að fara í stríð við gjaldeyrisskapandi greinar í landinu og keyra gengi krónunnar (sem þá var að baki gjaldeyrishöftum) upp úr öllu valdi á ofur hraða vegna þess að bankinn ætlaði, eins aðalhagfræðingur hans orðaði það, að gera rekstrarskilyrði gjaldeyrisskapandi greina erfiðari. Gengið styrktist um 25% á tiltölulega stuttum tíma, sem varð til að kippa rekstrargrundvelli undan ferðaþjónustufyrirtækjum sem verðlagt höfðu þjónustu sína og fengu greidda í erlendum gjaldmiðlum, en voru með útgjöld í íslenskum krónum,“ segir í grein Marinós sem hann birti á Facebook.

„Þessi aðför Seðlabankans að gjaldeyrisskapandi greinum varð til þess að afkoma sjávarútvegsins hrundi árið 2017 og ferðaþjónustan lenti í miklu rekstrarerfiðleikum árið 2018. Svona til að rifja upp þá mundaði litlu að stór hluti lána Icelandair yrðu gjaldfelldur í september 2018 og WOW endaði á því að fara í þrot. Fjölmörg fyrirtæki sem byggðu afkomu sína af tekjum frá ferðamönnum, lentu í miklum rekstrarvanda sem endaði með gjaldþroti sumra þeirra.

Sem sagt, þegar hin utanaðkomandi ógn í formi Covid barst að Íslandsströndum, þá hafði Seðlabankinn þegar veikt rekstrargrundvöll nær allra gjaldeyrisskapandi greina með glórulausri gengisstefnu.

En svo er það þetta:

Stærsti hluti ferðamanna streymdi til landsins á eigin vegum.

„Þessi grein gerir sjálfri sér engan greiða með því að fjölga ferðamönnum svona hratt og svona mikið. Þetta var svona sjálfsmark hjá þeim.“

Nú væri gott fyrir prófessorinn að fara stökum sinnum út úr sínu umhverfi í háskólanum og kynna sér hvað í raun og veru gerðist á árunum 2012-2016, þegar sprengja varð í komu ferðamanna.

Stærsti hluti ferðamanna streymdi til landsins á eigin vegum. Lítill minnihluti ferðamanna sem hingað komu voru í skipulögðum hópferðum á vegum íslenskra ferðaþjónustuaðila. Vissulega var hægt að kaupa pakkaferðir, en var yfirleitt ferðamenn á eigin vegum.  Þegar uppselt var í flug Icelandair og WOW, þá var bara flogið með einhverju af hinum óteljandi flugfélögum sem voru með áætlunarflug til Íslands. Ef það var líka uppselt, þá voru dæmi um leiguflug. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar stjórnuðu ekki streymi ferðalanga til landsins. Fólk bara kom.

Ég þekki þetta sjálfur, þar sem einn af mínum höttum er að vera leiðsögumaður. Margoft fékk ég fyrirspurnir með nánast engum fyrirvara vegna hópa sem voru að koma til landsins. Það var komin ferðaáætlun, flug og ferðin fullbókuð af farþegum, en allt annað vantaði. Rútur, gistingu, afþreyingarferðir og leiðsögumenn. Í eitt skiptið hafði samband við mig stór bandarísk fréttastofa. Hópur frá henni var að koma 5 dögum síðar og hann vantaði gistingu á háannatíma um verslunarmannahelgi. Ég gat útvegað þeim hana á 100.000 kr. nóttin í 5 tíma akstursfjarlægð frá upptökustað þeirra. Hætt var við ferðina. Og þetta var ekki eina ferðin sem hætt var við vegna þess að Ísland var uppselt. Þær voru óteljandi.  Svo var það fólkið sem flaug til Íslands án þess að vita hvað tæki við. Hvorki með bíl né gistingu.

Að fólk fengi þá jákvæðu upplifun af landinu…

Íslensku ferðaþjónustufyrirtækin voru ekki að hvetja til ferða til Íslands, þegar allt var sprungið.  Þau tóku við bókunum eins lengi og þau gátu, reyndu allt til að vera góðir gestgjafar og uppfylla óskir gesta sinna. Ef þau hefðu ekki gert það, þá hefði Gylfi Zoega örugglega verið að tala um það í viðtalinu hvernig ferðaþjónustan hefði brugðist þjóðinni á ögurstundu, þegar hún þurfti á gjaldeyri að halda.

Mér finnst það alveg rosalega leiðinlegt, þegar fólk sest svona í dómarasæti og dæmir af vanþekkingu, eins og mér virðist Gylfi gera. Ég hef engan hitt innan ferðaþjónustunnar, sem leið vel yfir ofurvextinum sem varð í skipulagslausum ferðum til Íslands á þessum árum. Fólk vildi stýrðan vöxt, þar sem hægt væri að bjóða öllum góða þjónustu. Að fólk fengi þá jákvæðu upplifun af landinu sem verður til þess að fólk vilji koma aftur og selur það til annarra. 

Öll fyrirtæki, sama í hvaða grein þau eru, hafa slík markmið. 

Þegar ég var farandsölumaður, á árunum 1980-86, þá hafði ég eitt meginmarkmið. Að geta komið aftur þar sem ég hafði verið. Því varð ég að hafa vissa stjórn á því hve mikið innkaupastjórarnir pöntuðu hverju sinni. Ef pantað var of mikið og setið var uppi með vöruna, þá myndi innkaupastjórinn ekki vilja tala við mig í bráð og jafnvel aldrei aftur. Þetta er raunar ein af grundvallarreglum hagfræðinnar, þ.e. um stjórnun framboðs, en ég lærði ekki um þá reglu fyrr en seinna.

Þannig var þetta með ferðaþjónustuna, þegar ofvöxturinn var í gangi. Fyrirtækin reyndu að stjórna framboði sínu á þjónustu sem best þau gátu. Eftirspurnin var hins vegar svo mikil, að enginn hafði undan. Allir gerðu sitt besta og fyrir það á Gylfi að þakka, en ekki hengja bakara fyrir smið.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: