- Advertisement -

Rembihnútur Sjálfstæðisflokksins

Árni M. Mathiesen og Davíð Þorláksson.

Ekki er einhugur innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Snemma á kjörtímabilinu byrjaði ósátt flokksfólk að finna að störfum borgarfulltrúanna Hildar Björnsdóttur og Katrínar Atladóttur. Þeir voru, og eru, sakaðar um að vera of oft sammála meirihlutanum. Einkum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og hans flokki, Samfylkingunni.

Svo langt hefur þetta farið að talað hefur verið um af fullri alvöru að best væri að reka þær úr flokknum. Til gamans birtast hér tvær tilvitnanir þar sem Hildur og Katrín hafa ekki haldið hópinn. Og það í sennilega viðkvæmasta málinu, það er lokun gatna í miðborginni.

Eyþóri Arnalds, pólitískum oddvita flokksins í borginni, er kennt um hvernig komið er. Því má búast við að enn og aftur skipti flokkurinn um oddvita í borgarstjórnarflokknum.

Sjálfstæðisfólki er fátt heilagra en að berjast gegn þrengingum að einkabílnum. Ekki bara í miðborginni. Heldur á að berjast með kjafti og klóm gegn borgarlínunni. Það gera þær Hildur og Katrín ekki.

Flokkurinn hefur ekki beygt af leið þó bæði innmúraðir og innvígðir skipi veigamestu stöðurnar í undirbúningsvinnu við borgarlínuna, það eru þeir Árni Mathiesen og Davíð Þorláksson.

Þegar eitt ár er til kosninga er Sjálfstæðisflokkurinn í einum rembihnút sem ekki verður séð hvernig verður greitt úr.

-sme