- Advertisement -

Riddarar kapítalismans grófu eina af kennisetningum nýfrjálshyggjunnar

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Riddarar kapítalismans, meðlimir The Business Roundtable, forstjórar stærstu og valdamestu fyrirtækja Bandaríkjanna sendu frá sér yfirlýsingu í síðustu viku og sögðu að ekki væri lengur hægt að reka fyrirtæki með hagsmuni hluthafa eina að leiðarljósi. Og grófu þar með eina af kennisetningum nýfrjálshyggjunnar um að öll verkefni samfélagsins væru best komin í höndum fyrirtækja sem hefðu arðsemi eina að leiðarljósi, það er hvernig þau gætu dregið sem mest fé upp í rekstri fyrirtækjanna og greitt hluthöfum sem mestan arð. Þessu hefur verið svo heitt og víða trúað að stjórnmálastéttin talar um arðsemi atvinnugreina eins og það sé eini mælikvarðinn á samfélagslegt mikilvægi þeirra; því meiri arðsemi (þ.e. gróði hluthafa) því samfélagslega mikilvægari sé atvinnugreinin. Og ef arðsemi fer niður (hluthafar geta dregið minna fé úr rekstrinum) þá verði ríkisvaldið að stökkva til að bæta hin svokölluðu rekstrarskilyrði (þ.e. skilyrði sem hluthafar hafa til að draga til sín fé) svo hluthafarnir geti haldið áfram að græða. Forstjórar stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna hafa nú hafnað þessari kenningu og sagt að það sé glórulaust að reka fyrirtæki með hagsmuni hluthafa eina að leiðarljósi. Við getum þá reiknað með að þessi hugsun fari að hafa mótandi áhrif á íslenska samfélagsumræðu eftir svona 5-10 ár.

Sumum leiðist hluthafar sem vilja ögra forstjóraveldinu.

En hvert á þá að vera leiðarljós fyrirtækja ef ekki bara hagur hluthafa? Forstjórarnir segja að fyrirtæki verði að taka mið af hagsmunum starfsfólks, birgja, samfélagsins sem fyrirtækin hafa rætur í, umhverfisins og loftslagsins.

Forstjórarnir hafa ýmsar ástæður fyrir þessari stefnubreytingu. Sumum leiðist hluthafar sem vilja ögra forstjóraveldinu, en bandarísk fyrirtæki eru mörg hver í svo dreifðri eignaraðild að í raun eru það forstjórarnir sem hafa tekið þau yfir. Þeir vilja varnir gegn aðgerðarsinnum meðal hluthafa, sem nýtt hafa sér hluthafafundi til að grafa undan stefnu forstjóranna og neyða þá jafnvel til að lækka laun sín, taka til sín minna af fé fyrirtækjanna.

Aðrir forstjóranna eru líka stórir hluthafar og hafa í gegnum þá stöðu trygg völd innan sinna fyrirtækja. Þeir sjá hins vegar að ýmsar þeirra hugmynda sem Bernie Sanders og Elizabeth Warren hafa dregið inn að miðju samfélagsumræðunnar muni ná fótfestu; því sé það betra fyrir kapítalistana að ráða för varðandi þessar breytingar. Meðal tillagna Warren er að í stærstu fyrirtækjunum fái starfsfólkið í það minnsta 40% af stjórnarsætunum. Og fleiri hugmyndir frá tímanum fyrir nýfrjálshyggjunnar eru að skjóta rótum. Í raun trúir því enginn lengur að það sé farsælt að reka fyrirtæki með arðsemi hlutafjár sem eina markmiðið.

Nema náttúrlega á Íslandi. Þar talar SA of Viðskiptaráð enn eins og þessi stórskaðlega dellukenning sé enn heilagur sannleikur. Og svo til öll stjórnmálastéttin; á Alþingi er enn rætt um að hleypa einkafjármögnun inn í fleiri grunnstoðir samfélagsins; orkugeirann, samgöngur, félagslegt húsnæði o.s.frv.; umræða sem byggir á þeirri trú að félagslegur rekstur með samfélagsleg markmið geti aldrei náð fram jafn góðri niðurstöðu og einkarekstur með það eitt að markmiði að auka gróða hluthafanna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: