- Advertisement -

Ríkisstjórnin er í fallhættu

Ekki blæs nú byrlega fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Stjórnin hefur jú aðeins eins manns meirihuta. Tæpar getur það ekki orðið. Þegar hafa þingmenn litlu flokkanna, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, kveinkað sér undan farginu sem fylgir Sjálfstæðisflokknum. Afbrýðissemi eða ólund mun sennilega ekki verða ríkisstjórninni að falli. Samt er ríkissjórnin í talsverðri fallhættu.

Við lestur fjölmiðla dagsins birtist væntanlegt banamein ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Að venju munu ákvarðanir taka mið af hagsmunum, ekki endilega husjónum. Stöldrum við. Ekki við kvartanir umverfisráðherra. Þær eru samt meira en einnar messu virði.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kann að verða örlagavaldur hvað varðar líf ríkissjórnarinnar. Hún fer, í nafni Viðreisnar, með bæði sjávarútvegsmál sem og landbúnaðarmál. Helstu hagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins.

Nei, við Framsókn

Þú gætir haft áhuga á þessum

Rifjum upp að í síðustu ríkisstjórn lögðust ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gegn því að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, gæti lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Vörn Sjálfstæðisflokksins stóðst álagið. Sigurður Ingi hefur sagt í viðtali við mig að sér hafi mislíkað hversu hart Sjálfstæðisflokkurinn brást við.

Jæja, til dagsins í dag. Sjálfstæðismenn hafa sagt opinberlega að best sé nú að lækka veiðigjöldin. „Það er ekki á dagskrá að lækka veiðigjöldin,“ segir Þorgerður Katrín í Fréttablaðinu í dag. Hanaslagur er framundan. Þorgerður Katrín segir einnig að gengið verði ekki fellt. Og það þrátt fyrir kröfur útgerðarinnar.

Til að snúa hnífnum í sárinu segir hún í sama viðtali: „Við hljótum öll að sjá að það gengur ekki lengur að vera með íslenska krónu. Nú erum við búin að setja á laggirnar starfshóp sem á að skoða þessi mál gaumgæfilega og ég vona að sá hópur vinni hratt og örugglega að lausn á málinu,“ segir Þorgerður Katrín.

Neytendur eða bændur?

Úpps. Þetta kætir eflaust samtarfsfólk Viðreisnar. Var ekki óþarfi að tala um krónuna? Nei, eflaust ekki. Viðreisn verður að sperra sig.

Og þá að hinu erfiða málinu. Og enn er það Þorgerður Katrín, nú í Mogga dagsins, þar sem hún talar um væntanlegar breytingar á lagaumhverfi landbúnaðarins:

„Allar breytingar sem kunna að verða gerðar, verða í þágu neytenda og að þeirra staða verði sterk og þeir njóti áfram fjölbreyttra matvæla á sviði mjólkuriðnaðar.“

Nei, hættu nú alveg. Og hvernig bregst vörn Sjálfstæðisflokksins við þessari hörðu sókn?

Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar og sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem talinn er geta orðið flokknum hvað erfiðastur, svarar í þekktum anda, sókn er besta vörnin:

„Þetta er ekki stjórnarfrumvarp. málið hefur ekki verið lagt fyrir ríkisstjórn, hvað þá að það hafi verið samþykkt þar. Enn sem komið er eru þetta bara hugmyndir sem ráð- herra hefur kynnt með þessum óformlega hætti á heimasíðu ráðuneytisins. Þetta hefur því ekkert komið til kasta atvinnuveganefndar og gerir það ekki fyrr en ef og þegar málið er orðið að lagafrumvarpi,“ sagði Páll við Moggann.

Þetta eru málin. Sjávarútvegur og landbúnaður. Þarna er fallhætta ríkisstjórnarinnar. Því í þessum málaflokkum er ekki endilega tekist á um hugsjónir, en örugglega um hagsmuni.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: