- Advertisement -

Ritsmiðjur og fyrirlestrar um furðusögur

Bókmenntaborgin býður upp á furðusagnasmiðjur með rithöfundinum og bókmenntafræðingnum Emil Hjörvari Petersen á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg 2014, en hún er nú haldin í þriðja sinn undir heitinu Tími fyrir sögu. Emil mun einnig halda þrjá opna fyrirlestra um furðusögur og geta áhugasamir því fræðst um ýmsa anga furðusögunnar í októbermánuði og spreytt sig á því að skrifa sínar eigin sögur.

Furður í Reykjavík – Ritsmiðjur í október

Hvernig er furðusaga unnin? Hvað liggur að baki því að skrifa fantasíu eða vísindaskáldsögu? Emil Hjörvar deilir reynslu sinni og aðferðum og þátttakendur fá að kynnast ferlinu og spreyta þig á því að þróa hugmynd og vinna úr henni. Smiðjurnar verða fjórar talsins og í hverri þeirra kynnast þátttakendur aðferðum og tækni í ritun svo að þeir geti þróað eigin ritfærni. Markmiðið er að þátttakendur fái innsýn í það ritferli sem á sér stað þegar furðusaga er unnin og öðlist grunnfærni í að skrifa slíkar sögur á íslensku.

Athugið að sami hópurinn tekur þátt í öllum smiðjunum fjórum.

Sjá nánar á heimasíðu Bókmenntaborgar.

Þriðjudagur 7. október kl. 20:00
Hvað eru furðusögur?

Hver er munurinn á háfantasíu, lágfantasíu og borgarfantasíu? Hvað er gufupönk? En hamfarasaga? Emil Hjörvar Petersen, rithöfundur og bókmenntafræðingur, fjallar um furðusögur frá ýmsum sjónarhornum, fræðir okkur um greinar og undirgreinar þeirra, erlendar jafnt sem íslenskar. Hann ræðir tungutak íslenskunnar í furðusögum og möguleikana sem furðan hefur hér á landi.

Fimmtudagur 9. október kl. 20:00
Furðusögur, táknkerfi og dýnamík: Kynhlutverk, oríentalismi, symbólismi

Hvernig birtast kynhlutverk í hinum ýmsu furðusagnagreinum, t.a.m. fantasíum og vísindaskáldskap? Hvernig birtast menningarheimar í vestrænum furðusögum? Hvernig nýtast goðsögur, þjóðsögur og mannkynssagan í furðusköpun? Í öðrum fyrirlestri sínum um furðusögur ræðir Emil Hjörvar Petersen um virkni furðunnar sem skáldskapartæki, hvernig þemu og hlutverk mótast út frá frásagnarhættinum og öfugt. Auk þess fjallar hann um það hvernig staðreyndum er breytt í skáldskap og hvernig hliðarheimar kallast á við veruleikann.

Laugardagur 11. október kl. 15:00
Borgin og furðan

Hvernig birtist borgarlífið í furðunni? Hvernig nýtist nærumhverfið og daglegt líf í furðusagnaskrifum? Í þriðja fyrirlestrinum ræðir Emil Hjörvar Petersen um fantasíur sem eiga sér stað í samtímaumhverfi, hvernig hið fantasíska er háð hinu veraldlega, hvernig jafnvægi er fundið milli furðunnar og raunverunnar, og hvernig borgin sem frásagnarþáttur verður að undirstöðu í borgarfantasíum.

Sjá nánar hér.

Emil Hjörvar er höfundur þríleiksins Saga eftirlifenda, en síðasta sagan í seríunni er væntanleg nú í október. Athugið að það þarf að bóka þátttöku í ritsmiðjurnar (sjá hér fyrir neðan) en fyrirlestrarnir eru öllum opnir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: