- Advertisement -

Seðlabankinn veitir styrki

Samfélag Seðlabankinn hefur úthlutað, í  fjórða sinn, styrkjum úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Vorið 2011 var ákveðið að stofna til þessa sjóðs í tilefni af 50 ára afmæli Seðlabanka Íslands og var fyrsta úthlutun ári síðar. Styrknum er ætlað að styðja við lofsverða viðleitni einstaklinga sem miðar að því að varðveita þá menningararfleið sem núverandi kynslóð býr að.

Alls bárust 36 styrkumsóknir í ár og voru tveir styrkir veittir. Rannveig Anna Jónsdóttir hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisinsVarðveisla og öflun á upplýsingum um skrif kvenna í íslenskri menningarsögu og Níels Hafstein hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Sýnisbók safneignar.

Meðfylgjandi mynd var tekin við þetta tækifæri. Á myndinni eru frá vinstri: Margrét Norðdahl, sem veitt viðtöku styrk fyrir hönd Níelsar Hafstein, Hildur Traustadóttir, formaður úthlutunarnefndar, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Rannveig Anna Jónsdóttir, annar styrkþega.

Rannveig Anna Jónsdóttir sótti um styrk í sjóðinn til að afla upplýsinga um kvenrithöfunda Íslands og útgefin verk þeirra. Hún ætlar að gera þessar upplýsingar aðgengilegar á stafrænu formi á heimasíðu Konubókastofu og einnig gefa þær út á bókarformi. Þá stendur til að þýða á ensku og þýsku upplýsingar um þessa höfunda á styttra formi til að auka sýnileika íslenskra kvenrithöfunda í alþjóðlega bókmenntaheiminum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Níels Hafstein sótti um styrk í sjóðinn fyrir Safnasafnið til að gefa út sýnisbók um verk eftir 100 listamenn og verður hver þeirra kynntur á einni blaðsíðu með texta og ljósmynd. Bókin verður í senn kynningarrit og gagnlegt hjálpartæki við undirbúning fyrir rannsóknir og sýningar sem sýnir þróun íslenskrar alþýðulistar í 170 ár. Safnasafnið varðveitir um 5500 listaverk og eru þau eftir flesta helstu alþýðulistamenn þjóðarinnar og þau elstu eftir Hjálmar Jónsson frá Bólu og Sölva Helgason.

Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir en aðrir í nefndinni eru Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: