- Advertisement -

Smíða tappa í skattalekann

Alþingi Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, um þunna eiginfjármögnun, sem snýst sérstaklega um alþjóðlegar félagasamstæður þar sem móðurfélög eru staðsett annars staðar en dótturfélög þeirra. „Þetta hugtak kemur ekki til ef öll félög innan samstæðunnar eru staðsett í sama landi en kemur til þegar um er að ræða alþjóðleg félög. Ef móðurfélagið vill geta tekið sem mestan hluta hagnaðar dótturfélagsins til sín er núna hagkvæmara að móðurfélagið láni dótturfélaginu háar fjárhæðir sem síðan eru greiddar til baka með háum vöxtum sem fela í raun í sér greiðslu á hagnaði dótturfélagsins sem alla jafna ætti að greiðast út sem arður til eigenda móðurfélagsins í formi vaxtagreiðslna,“ sagði Katrín og spurði ráðherra hvort breytinga væri að vænta.

Bjarni Benediktsson sagði embættismenn innan fjármálaráðuneytisins vinna að furmvarpi vegna þessa. „ Ég hef lagt áherslu á að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og að við bregðumst við ábendingum um það sem betur mætti fara í okkar löggjöf til að samræma aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að lágmarka hættuna á undanskotum af þessu tagi. Í raun erum við að tala um fyrirkomulag sem alþjóðleg fyrirtæki hafa reynt að beita til að koma sér undan því sem við gætum kallað eðlilega skattlagningu.“

BB KJHann sagði íslensk tekjuskattslög innihalda mikilvæg ákvæði.“ Í 57. gr. tekjuskattslaganna eru ákvæði fyrir skattyfirvöld þegar um er að ræða óvenjulega skilmála í viðskiptum, þar með talið milliverðlagningu eða óeðlilega vaxtaskilmála, ákvæði sem unnt er að beita ef skatteftirlit eða skattrannsókn leiðir eitthvað óeðlilegt í ljós við skoðun á skattskilum fyrirtækja. Með öðrum orðum má gefa sér að milliverðlagning, lánaviðskipti og vaxtakjör innan samstæða séu almennir þættir í hefðbundnu eftirliti skattyfirvalda á skattframtölum fyrirtækja á hverjum tíma.“

Tveir heimar takast á

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hins vegar eru undirliggjandi tveir heimar að takast á. Þá er ég að tala almennt um skattlagninguna. Annars vegar er sá heimur sem segir að það þurfi að halda áfram að samræma endalaust þar til allri skattalegri samkeppni hefur í raun verið eytt út og hins vegar sá heimur sem segir að það sé heilbrigt, eðlilegt, sanngjarnt og jafnvel fallið til efnahagslegra framfara að lönd keppi á skattasviðinu. Ég hallast að þeirri kenningu, ég hallast að þeim skóla að það sé sjálfsagt og eðlilegt að lönd keppi sín í milli um hylli fyrirtækja, m.a. á skattasviðinu, en á hinn bóginn eigi að ríkja fullt gegnsæi og menn eigi að vera með opnar bækur og veita allar upplýsingar sem hægt er. Þannig held ég að við náum mestum efnahagsframförum,“ sagði Bjarni meðal annars.

Ekki út úr blámanum

Katrín rakti forsögu málsins og sagði að þessu máli hafi verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem skilaði nefndaráliti þar sem lagt var til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. „Í nefndarálitinu kemur fram að umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar hafi almennt verið mjög jákvæðir um markmið frumvarpsins og talið þarft að setja reglur um þunna eiginfjármögnun. Þetta frumvarp kom náttúrlega ekki út úr blámanum heldur byggði meðal annars á skýrslu sem var unnin fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið á árinu 2011.“

Hún sagði að hins vegar voru gerðar lagatæknilegar athugasemdir. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi markmið frumvarpsins jákvætt en það þyrfti frekari skoðun út frá lagatæknilegum athugasemdum og þess vegna var því vísað til ríkisstjórnar.

„Hér vitna ég beint í nefndarálitið, með leyfi forseta: „Sér nefndin þannig fyrir sér að það verði tekið til skoðunar og vinnslu í vor og sumar og verði lagt fyrir Alþingi að nýju í betrumbættri útgáfu, annaðhvort sem stjórnarfrumvarp lagt fram af ráðherra eða sem frumvarpsdrög send nefndinni á næsta haustþingi sem lýsir sig þá reiðubúna til að flytja málið.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: