- Advertisement -

„Starf alþingismannsins er síður en svo auðvelt“

„Þingmennska er jafnvægislist sem krefst bæði virðingar fyrir formfestu og sköpunargáfu, sem og hugrekkis til að hugsa vinnulagið upp á nýtt.“

Halla Tómasdóttir forseti Íslands.

„ Hér verður að ríkja ákveðin formfesta og þingmenn þurfa að kunna og vilja fara að þeim reglum. Á sama tíma þurfa þingmenn að vera skapandi og framsýnir, skynja æðaslátt samfélagsins og sjá hvert þróunin stefnir og hvernig hægt er að beina landsmönnum á farsæla braut. Það er ekki heiglum hent, því málefnin eru óteljandi og það er krefjandi að kynna sér þau eins og þarf,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, þegar hún setti Alþingi í gær.

„Það er sannarlega vandaverk að setja lög um mál sem voru kannski ekki til fyrir fáeinum árum, þar sem jafnvel þarf að búa til ný orð til að ná utan um fyrirbrigðin og læra að hugsa á nýjan hátt til að geta nálgast nýjan veruleika. Samspil geira samfélagsins verður sífellt flóknara, keðjuverkunin meiri og á sama tíma er erfiðara að greina milli vandaðra upplýsinga og markleysu. Jafnframt því að takast á við breytingar, sem þegar eru orðnar, þarf að horfa fram í tímann: hvaða breytinga má vænta á næstu árum og áratugum? Nú eða á næstu dögum og vikum ef tekið er mið af þróun mála á alþjóðlegum vettvangi að undanförnu. Hvernig búum við samfélagið undir þær? Þessum áskorunum þarf að mæta ekki einungis með nýju tungutaki heldur með nýrri hugsun. Þetta eru ærin verkefni fyrir samhentan hóp sem hjálpast að við að leita bestu lausna til skemmri sem lengri tíma. Það kallar í senn á samstarfsvilja, frjótt ímyndunarafl, framsýni og öguð vinnubrögð. Þingmennska er jafnvægislist sem krefst bæði virðingar fyrir formfestu og sköpunargáfu, sem og hugrekkis til að hugsa vinnulagið upp á nýtt,“ sagði forsetinn meðal annars á Alþingi í gær.