Reykjavíkurbréf Moggans er að venju helgaður Donald Trump. Síðasti hluti bréfsins er úr allt annarri átt:
„En það er margt, stórt og smátt, sem óneitanlega vekur viðbjóð. Bréfritara ofbauð þegar sýndur var í sjónvarpi ótrúlegur framgangur við íslenska hesta. Virtist skömmin vera unnin í tengslum við meðferð blóðmera. Allt var það nægjanlega ógeðfellt. En svo bættist við að hrossin voru lúbarin á alla lund, og það var ljóst að blessaðar skepnurnar áttuðu sig á að þær voru komnar í hendurnar á ómennum. Þau reyndu meira að segja, í ömurlegum ótta sínum, að brjótast út úr básagirðingum sínum, sem var of mikið fyrir hrossin. Langt er síðan önnur eins skömm var sýnd í sjónvarpinu. Það hefur ekki enn verið upplýst hvaða ömurlegu skálkar voru þarna á ferð, sem ætti þó að vera skylt að gera grein fyrir.“