- Advertisement -

Sýningarnar Reykjavík, bær, bygging og Hliðstæður

Menning Tvær sýningar með úrvalsverkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur verða opnaðar laugardaginn 31. maí kl. 16. á Kjarvalsstöðum, Reykjavík, bær, bygging og Hliðstæður.

Á sýningunni Reykjavík, bær, bygging má sjá hvernig borgin kom íslenskum listmálurum fyrir sjónir á hundrað og tveggja ára tímabili, allt frá 1891 til 1993.

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO hefur valið Reykjavíkurljóð eftir 10 skáld frá árunum 1931-2013 til að ljóðskreyta sýninguna. Þetta er fyrsta samstarfverkefni Listasafns Reykjavíkur og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO á þessu sviði. Á sýningunni eru málverk eftir helstu frumherja íslenskrar myndlistar, Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson Jóhannes Kjarval, Kristínu Jónsdóttur og Gunnlaug Blöndal. Einnig eru á sýningunni úrvalsverk næstu kynslóðar, sem komst til þroska á öðrum og þriðja áratug aldarinnar, þeirra Snorra Arinbjarnar, Gunnlaugs Scheving, Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur. Sýningarstjórar eru Hafþór Yngvason og Aðalsteinn Ingólfsson.

Verkin á sýningunni Hliðstæðum spanna 73 ára tímabil en þar er verkum ólíkra listamanna spilað saman, tveimur eða þremur í senn, til að draga fram líkindi þeirra á milli.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í bókmenntum er talað um hliðstæður þegar setningar eða setningarliðir eru endurteknir með sömu orðaröð og svipuðum orðafjölda. Vensl verkanna á sýningunni eru tilfallandi, án þess að um bein áhrif eða vísvitandi skírskotanir sé að ræða. Í flestum tilfellum eiga listamennirnir fátt sameiginlegt. Þeir eru afsprengi mismunandi tíma, innblásnir af ólíkum hugmyndum og liststefnum. En þeir eru þó kvistar af sama meiði. Sem listmálarar standa þeir frammi fyrir sambærilegum valkostum og á stundum má finna hliðstæður í verkum þeirra sem geta vakið nýjan skilning og opinberað forsendur að baki verkanna. Sýningarstjóri er Hafþór Yngvason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: