- Advertisement -

Gunnar Gunnarsson – minningarorð

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Útför Gunna Gunn verður í dag. Með okkur tókst góð vinátta þegar ég bjó í Ólafsvík. Voð vorum samstíga í pólitíkinni. Sátum marga fundi saman. Gunni var með fastmótaðar skoðanir en flaggaði þeim of sjaldan.

Kona Gunna var Ester Gunnarsdóttir. Ester varð til þess að vertíðin sem Gunni fór sem ungur maður varði allt hans líf. Það var gaman að sitja heima hjá þeim og hlusta á frásagnirnar. Ester tók mikinn þátt í bæjarlífinu.

Við Gunni urðum tvisvar samskipa. Fyrst á Fróða þar sem Gunni var stýrimaður og stundum skipstjóri. Hans létta lund hafði mikið að segja. Glaðlyndur og orðheppinn. Fyrsta flokks skipafélagi.

Seinna réði Gunni sig sem skipstjóra á Gunnar Bjarnason. Hans fyrsta verk var að sannfæra mig um að koma með sér og bauð mér stýrimannsplássið. Sem ég þáði. Við rérum á rækju og lönduðum á Ísafirði.

Skil milli starfa okkar urðu óljós. Tveir vinir að gera saman eins vel og við gátum. Allt gekk með sóma. Fiskuðum á við alla aðra og andinn um borð var fínn. Eins og við mátti búast. Gunni Gunn var skipstjórinn.

Nú langar að bakka um nokkur ár. Ég og mín fjölskylda fórum í frí til Mallorca. Komum á hótelið að kvöldi dags. Þegar ég gekk til að draga fyrir stofugluggann sá ég mann út á svölunum við hliðina. Viti menn, þar var Gunni Gunn.

Vorum „nágrannar“ í nærri þrjár vikur. Það var margt brallað og margt gert. Og mikið spjallað. Jónas, sonur Gunna og Esterar, var þar líka með sína ungu fjölskyldu. Þetta var nánast ógleymanlegur tími.

Jónas átti ég eftir kynnast betur. Hann átti ekki langt að sækja trúmennsku og aðra mannkosti.

Að lokum sendi ég Ester, sonunum þremur og öllum afkomendum Gunna og Esterar hugheilar samúðarkveðjur við andlát góðmennisins Gunnars Gunnarssonar og þakka fyrir langa og trausta vináttu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: