- Advertisement -

Máttur alþýðuhreyfinganna þvarr og við sigldum inn í alræði auðvaldsins

Gunnar Smári skrifaði þessa fínu grein:

Ég hafði ekkert að gera, Rauða borðið komið í páskafrí, svo ég teiknaði fyrir ykkur Íslandssöguna frá miðri þar síðustu öld og fram undir lok þessarar. Njótið frídagana yfir páskahátíðarinnar.

Þetta er saga átta kynslóða (sjá kynslóðamörk undir ártölum), þær fyrstu risu upp úr algjöru vald- og áhrifaleysi, mynduðu með sér félög og síðar baráttutæki sem náðu um tíma að hafa veruleg áhrif á uppbyggingu samfélagsins, færðu almenningi kosningarétt, möguleika á menntun, heilbrigðisþjónustu, skárra húsnæði og betri kjör. Um miðbik kúrfunnar neyddist auðvaldið og afturhaldsöflin að gangast að hluta við kröfum alþýðuhreyfinganna. Um tíma leit út fyrir að auðvaldið yrði að beygja sig undir vilja alþýðunnar í nýjum samfélagssáttmála en það öfuga gerðist, alþýðuhreyfingarnar tóku smátt og smátt undir kröfur auðvaldsins og beygðu sig undir samfélags- og manngildissýn þess. Máttur alþýðuhreyfinganna þvarr og við sigldum inn í alræði auðvaldsins, samfélagsgerðar sem afar okkar og ömmur, langafar og langömmur, höfðu barist gegn og næstum haft undir. Framhald kúrfunnar er ekki spá, aðeins mynd þess sem gerist ef við rísum ekki upp, sameinumst og skipuleggjum okkur gegn andlýðræðisöflunum sem berjast heiftúðlega fyrir því að peningavaldið nái öllum völdum af almenningi, öllum réttindum hans og eignum.

Ártölin:

1850: Dagsbrún alþýðuhreyfinga í sveitum. Lestrarfélög stofnuð sem færðu ferskar hugmyndir að utan til almennings. Bindindisfélögin, ungmennafélögin, kvenfélögin o.s.frv. fylgja á eftir og á grunni þessarar félagsuppbyggingar koma kaupfélögin og félagsleg atvinnuuppbygging um allt land.

1916: Dagsbrún alþýðuhreyfinga á mölinni. Alþýðusambandið stofnað, Alþýðuflokkurinn og Alþýðublaðið ári eftir samþykkt almenns kosningaréttar. Á eftir fylgja Alþýðuhúsin, byggingasamfélög og síðan félagsleg atvinnuuppbygging bæjarútgerða og kaupfélaga, opinber innviðauppbygging, almennt heilbrigðis- og skólakerfi o.s.frv. Samfélagið er æ meira móta að kröfum og væntingum alþýðunnar.

1959: Myndun Viðreisnarstjórnarinnar. Í kaupum fyrir að auðvaldið fallist á sumt af kröfum verkalýðshreyfingarinnar samþykkir Alþýðuflokkurinn og stærsti hluti verkalýðshreyfingarinnar fullyrðingar auðvaldsins um að mestar hagsbætur komi ekki í gegnum félagslega uppbyggingu samfélagsins heldur frá kapítalískum rekstri og svokölluðum frjálsum viðskiptum. Eftir þetta eru allar meginkröfur auðvaldsins þær sem hægri menn sömdu eða gátu fallist á: Séreignarstefna á húsnæðismarkaði, lífeyrissjóðakerfi sem framlengir stéttaskiptingu vinnumarkaðarins út fyrir gröf og dauða o.s.frv. Áherslan fer frá félagslegum þáttum yfir á einstaklingsrétt.

1991: Myndun Viðeyjarstjórnina. Alþýðuflokkurinn hleypir Eimreiðarklíkunni til valda í annað sinn. Fyrri tilraun 1987 mistókst. Eftir þetta hefst hratt niðurbrot þess ávinnings sem alþýðuhreyfingar fyrri ára höfðu náð. Fiskimiðin eru einkavædd þrátt fyrir baráttu þjóðarinnar í landhelgisstríðunum, Sambandið er keyrt í þrot og eignum þess stolið af óligörkum, skattar lækkaðir á hin ríku en auknir á almenningi, dregið úr völdum verkalýðshreyfinga og almannahreyfinga, Verkamannabústaðir eyðilagðir, allt fjármálakerfið markaðsvætt og svo einkavætt og sparisjóðunum stolið. Svo til allur félagslegur atvinnurekstur lagður af og einkarekstur stóraukinn í opinberri þjónustu.

2024: Þú ert hér. Á sama stað og áar þínir voru 1916. Kosningarétturinn er marklaus þar sem stjórnmálin hafa verið sveigð undir auðvaldið. Alþýðuflokkurinn á þingi er Flokkur fólksins, sem hefur engin plön um annað þjóðskipulag en telur sig geta vælt meðaumkun út úr hinum ríku. Flokkar sem áður voru stjórnmálaafl verkalýðsins keppast um að bera auðvaldið til allra valda. Ójöfnuður er svipaður og áður var. Yfirburðir erfingja Samherja yfir venjulegu fólki, hvort sem talið er í auð eða áhrifum, er viðlíka og munurinn á Thorsurunum og vinnuhjúunum sem þrifu undan þeim.

2090: Framtíðin. Ef kúrfan segir rétta sögu verða börn og barnabörn þín komin niður á stig vinnuhjúanna um miðja þar síðustu öld, valdalaus um eigið líf, með viðlíka stöðu og búfénaður í alræði höfðingjanna. Sem er þeir sem rændu þig og foreldra þína af auð, eignum, völdum og auðlindum. Er það framtíðin sem þú ætlar að færa börnum þínum og barnabörnum?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: