- Advertisement -

Þeim finnst þægilegra að starfa í meirihluta með auðvaldsflokkunum

Þessi tilvitnun nær vel utan um stjórnarfyrir-komulagið á Íslandi.

Gunnar Smári skrifar:

Ég sá þessa tilvitnun á Facebook. Þetta nær vel utan um stjórnarfyrirkomulagið á Íslandi, það alræði auðvaldsins sem við búum við. Jafnvel kratarnir í VG og Samfylkingunni virðast ekki geta haldið uppi kröfu sósíaldemókratíunnar frá síðustu öld, að ýta auðvaldinu frá öllum völdum innan ríkisvalds, sveitarfélaga og annarra arma lýðræðisvettvangsins, sem er meginvörn almennings gagnvart ofurvaldi auðsins.

Hér ríkir algjör sátt um það meðal stjórnmálaflokkanna á þingi að samtök fyrirtækja- og fjármagnseigenda skuli hafa neitunarvald innan ríkisvaldsins, að vald almennings nái ekki lengra en að þeirri línu sem auðvaldið dregur í sandinn. Þess vegna finnst þessum flokkum þægilegra að starfa í meirihluta með auðvaldsflokkunum, þá lenda þeir ekki í neinum opinberum ágreiningi við auðvaldið. Þetta á bæði við um VG í ríkisstjórn og Samfylkinguna í borginni. 

…ægivald auðvaldsins yfir ríki, sveitarfélögum, dómsvaldi…

Ægivald auðvaldsins yfir atvinnulífinu og þar með lifibrauði almennings er alvarleg ógn sem við eigum að berjast gegn, krefjast réttinda launafólks innan fyrirtækjanna og byggja upp samvinnurekstur og önnur rekstrarform þar sem samfélagsleg markmið eru sett ofar auðsöfnun hinna fáu. En ægivald auðvaldsins yfir ríki, sveitarfélögum, dómsvaldi og öðru almannavaldi grefur ekki aðeins undan jöfnuði og réttlæti heldur mylur niður allt siðferði í samfélaginu, snýr öllu réttlæti á haus og lætur þær stofnanir sem eiga að verja rétt hinna mörgu magna upp auð og völd hinna fáu; breytir lýðræðinu í andhverfu sína, fyrirkomulag sem vinnur ætíð gegn hagsmunum lýðsins og sem er á góðri leið að búa til erfðaríki hinna ríku þar sem fjöldinn hefur ekkert hlutverk annað en að þjóna hinum fáu. Alræði auðvaldsins er ekki lýðræði heldur klíkuveldi hinna fáu, þjófræði þar sem þau sem sölsa undir sig eignum, auðlindum og völdum almennings fara sínu fram.

Kosningarnar í haust ættu að snúast um þetta. Viljum við hrekja auðvaldið frá völdum sínum innan ríkisvaldsins, valdsins sem á að vera framkvæmdavald almennings? Mér vitanlega hefur aðeins einn flokkur þetta á stefnuskrá sinni, Sósíalistaflokkur Íslands. Aðrir flokkar eru með allskonar hugmyndir um hvað má gera betur innan alræðis auðvaldsins. Sósíalistaflokkurinn einn vill að almenningur breyti samfélaginu eftir eigin hagsmunum og vilja, burtséð frá því hvað hin fáu ríku og valdamiklu vilja.

Og þessi staða er ekki uppi vegna þess að Sósíalistaflokkurinn sé svona skrítinn. Í raun stendur hann fyrir klassískar lýðræðishugmyndir um réttlæti og jöfnuð, ekki bara tekjujöfnuð heldur eigna- og valdajöfnuð, klassískar hugmyndir sem voru grunnurinn að þeim stjórnmálahugmyndum sem byggðu upp það réttlæti sem við enn njótum í dag. Það skrítna við stöðuna í dag er að allir flokkarnir á þingi hafa beygt sig undir ægivald auðvaldsins, eru sannfærðir um að valdi þess verði aldrei ógnað; eru sannfærðir um stjórnmál eigi því ekki að snúast um hver fer með völdin í samfélaginu heldur aðeins um áferðina á kúgunarvaldi auðvaldsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: