- Advertisement -

„Þið fyrirgefið orðbragðið en þetta er viðbjóður“

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ég er að byrja að lesa umfjöllun Stundarinnar um fátæk börn. Á þessum fallega degi, þegar sólin skín. Enn eina ferðina fyllist ég undrun á því hvernig hægt er að útbúa samfélag sem þolir svona mikla grimmd. Símafélag þar sem sumir menn fá 6, 7, 10, 14 milljónir á mánuði, samfélag þar sem lítil stúlka ákvað þegar hún var 10 ára að hún þyrfti ekki lengur að halda upp á afmæli sitt. Veit að hún er fátæk en hugsar ekki um það, nema þegar maturinn klárast á heimilinu. – Þið fyrirgefið orðbragðið en þetta er viðbjóður. Til svo mikillar skammar að það er óbærilegt. – Ég veit að það er ekki gott að segja að í faraldrinum og því ástandi sem við okkur blasir búi tækifæri. Það er ekki í lagi að láta eins og þjáningar, áhyggjur og veikindi séu eitthvað sem við getum horft á með einstaklings-hyggju, sigurvegara-gleraugunum, í einhverju Randísku survival of the fittest rugli. Í því er fólgin félagsleg grimmd sem við eigum auðvitað að hafna. – En ég hef samt sagt við sjálfa mig og aðra að við höfum tækifæri. Tækifæri til að krefjast og berjast fyrir því að okkar bíði ekki, hinum megin við gáttina sem Arunhati Roy talar um, sama grimmdin, sama hugmyndafræðin um að hinn sterki megi kremja hinn veika, sama skeytingarleysið um örlög annars fólks. Tækifæri til að hafna því að börn þurfi að bera ógnvænlegan fórnarkostnað stéttaskiptingarinnar. Tækifæri til að láta réttlætiskenndina okkar, mannúðina okkar, samhygðina okkar ráða för. Tækifæri til að segja hátt og skýrt að við höfnum leikreglunum sem þröngvað hefur verið upp á okkur. – Við höfum tækifæri, ég ætla að segja það. En við verðum að berjast og standa saman. Öll sem eitt. Með gildin okkar að vopni. Þetta er okkar samfélag, við höfum völd til að breyta leikreglunum. – Seigla og þrautseigja. Þær systur þurfum við núna að biðja að liðsinna okkur. Svo að við getum gengið áfram, og komist á þann stað sem við viljum vera á, þar sem að börn öryrkja og börn einstæðra foreldra og börnin okkar allra viti að þau verða ekki skilin eftir til að axla byrðarnar ein.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: