- Advertisement -

Þrír milljarðar til þeirra best settu – teknir frá þeim sem minnst hafa

Það er alltaf verið að níðast á þeim sem minnst hafa og þeir græða sem mest hafa.

„Ég sé ekki eftir þeim fjármunum sem fara þarna í lægstu tekjutíundirnar en mér finnst mjög sorglegt að þarna fari 3 milljarðar af 6 milljörðum til tveggja tekjuhæstu tíundanna og í boði eins stjórnmálaflokks á Alþingi. Það finnst mér sorglegt,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra þegar hann talaði um afleiðingar dóms, þar sem Flokkur fólksins, vann gegn íslenska ríkinu.

„Ég get ekki að því gert að ég hefði viljað nota þá fjármuni til annarra hluta þannig að þeir gætu nýst lægstu tekjutíundunum eða þeim hópi sem við erum að koma með frumvarp inn í þingið fyrir, þeim einstaklingum sem ekki eiga réttindi og við erum að setja sérstakan bótaflokk fyrir. Þessum 3 milljörðum sem fara í hæstu tekjutíundirnar — fyrrverandi alþingismenn, fyrrverandi forstjórar og fyrrverandi bankastjórar eru að fá 400.000–500.000 kr., mér finnst það sorglegt og mér finnst það dapurlegt. En að sjálfsögðu stendur ríkið við þetta og mun greiða þetta út og það verður gert í þessum mánuði eða næsta.“

En hvert er upphaf þessa máls? Mistök Alþingis og ríkisvalds?

Þú gætir haft áhuga á þessum
Guðmundur Ingi Kristinsson:
„Framsóknarflokkurinn gleymdi þessu og Sjálfstæðismenn og síðar voru það Sjálfstæðismenn, Viðreisn og Björt framtíð sem samþykktu þetta.“
Mynd: ruv.is.

„Þetta voru sannarlega mistök við lagasetningu,“ sagði Ásmundur Einar.

„Ef við gerum mistök viðurkennum við mistökin og bætum fyrir þau en Alþingi fékk dóm, það braut lög og hvort það bitnar á þeim sem hafa mikið eða lítið skiptir bara engu máli í því samhengi,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins.

„Ef þú brýtur lög og átt að bæta það þá gerirðu það. Og það er út í hött að móðgast og reyna að verja það að þetta hafi farið til þeirra sem eru með hæstu tekjurnar en ekki þeirra sem eru með þær lægstu. Við getum alveg snúið því við, gjörsamlega snúið því við. Það er alltaf verið að níðast á þeim sem minnst hafa og þeir græða sem mest hafa. Það hefur ekkert með það að gera, en þið eigið að standa við orð ykkar. Það sem er furðulegast í þessu er að enginn hefur beðist afsökunar eftir á. Það hefur enginn beðist afsökunar. Framsóknarflokkurinn gleymdi þessu og Sjálfstæðismenn og síðar voru það Sjálfstæðismenn, Viðreisn og Björt framtíð sem samþykktu þetta. Það hefur enginn beðist afsökunar enn þann dag í dag.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: