- Advertisement -

Til varnar popúlisma

ÞAÐ ER NÝFRJÁLSHYGGJAN SEM ER ÓGN VIÐ LÝÐRÆÐIÐ.

Gunnar Smári skrifar:

Uppgangur popúlista er ekki mesta ógnin við lýðræðið, heldur aðeins eitt af mörgum einkennum upplausnar lýðræðisins á síðustu áratugum, á tímabili nýfrjálshyggjunnar. Popúlisminn er í reynd fremur viðbrögð við upplausn lýðræðisins í kjölfar nýfrjálshyggjunnar, afleiðing og mögulega enn eitt skrefið til enn frekari upplausnar en alls ekki ástæða hennar.

Nýfrjálshyggjan hefur étið upp lýðræðissamfélög Vesturlanda undanfarna áratugi, samfélögin sem áratugina eftir almennan kosningarétt á fyrstu áratugum síðustu aldar voru mótuð eftir kröfum verkalýðshreyfingarinnar og annarra almannasamtaka, þar sem alþýðunni tókst að nýta afl sitt, afl sem liggur í fjöldanum. Eftir samfélagslega upplausn óhefts kapítalisma, taumlausa misskiptingu og ógnarvöld hinna ríku, tókst að hemja mestan skaðann af kapítalismanum. Segja má að velferðarkerfin byggð á vaxandi skattbyrði eftir vaxandi tekjum hafi bjargað kapítalismanum frá að tortíma sjálfum sér og samfélaginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Með vaxandi auði jókst peningavald auðvaldsins.

Hin ríku brugðust við auknu valdi alþýðunnar um miðbik síðustu aldar með gagnbyltingu; nýfrjálshyggjunni. Kjarni hennar snýst um að flytja völd, fjármuni og eignir frá sameiginlegum vettvangi yfir til hinna ríku. Með skattalækkunum til fyrirtækja- og fjármagnseigenda var fé flutt frá þeim sem áttu lítið sem ekkert til þeirra sem áttu mikið og vildu eignast enn meira. Með vaxandi auði jókst peningavald auðvaldsins. En samhliða þessu var vald hins lýðræðislega vettvangs kerfisbundið brotið niður og ákvarðanir um flest mikilvæg málefni flutt út á hinn svokallaða markað, frá hinum lýðræðislega vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á markaðinn þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og hin ríku geta farið sínu fram. Þeim ákvörðunum sem ekki var vísað út á markaðinn voru setta skorður með alþjóðlegum skuldbindingum, fjármálaáætlunum og öðrum stjórnsýslulegum skorðum, sem miðuðu fyrst og síðast að því að tryggja og auka enn vald hinna ríku; fyrirtækja- og fjármagnseigenda.

Með valdaafsali hins lýðræðislega vettvangs, þess vettvangs þar sem almenningur gat beitt valdi sínu í krafti fjöldans, voru stjórnmálin afstjórnmálavædd; þau voru ekki lengur völlur stéttaátaka heldur höfðu verið svipt ákvörðunum um uppbyggingu meginkerfa samfélagsins. Því var haldið fram að hinn lýðræðislegi vettvangur hefði ekki rétt til að grípa inn í mótun samfélagsins, að inngrip hans væru háskaleg og gætu raskað einskonarnáttúrulegu jafnvægi sem aðeins hinn svokallaði markaður, leikvöllur hinna ríku, gæti tryggt. Þau svæði samfélagsins sem áður tilheyrðu hinum lýðræðislega vettvangi; innviðir á borð við vegi, flugvelli og hafnir, velferðarkerfi á borð við heilbrigðis- og menntakerfi, grunnkerfi á borð við orku, fjarskipti og almannasamgöngur, ákvarðanir um gengi, vexti og verðlag; skipulega var valdið yfir þessum grunnkerfum samfélagsins, rekstur þeirra og umsjón flutt frá hinum lýðræðisleg vettvangi, sem taka átti mið af almannahag, yfir á markaðinn, sem fyrst og síðast tók mið af arðsemi, af því hversu mikið fé eigendur fyrirtækja gætu dregið upp úr rekstrinum og greitt sér í arð.

Vald auðvaldsins óx því langt umfram völd ríkisins, réttur þess til að sölsa undir sig eignir almennings, auðlindir og áður opinber verkefni.

Lærdómur fyrri hluta síðustu aldar, í kjölfar almenns kosningaréttar og vaxandi afls verkalýðshreyfingarinnar og annarra almannasamtaka, um að lykillinn að góðu samfélagi væri að helstu grunnkerfum samfélagsins yrði stýrt út frá almannahag, eins og hann var skilgreindur á hinum lýðræðislega vettvangi, gleymdist. Stjórnmálin gáfu frá sér þetta vald, féllust á þá kenningu að það væri ekki hlutverk hins lýðræðislega vettvangs að stýra uppbyggingu grunnkerfa samfélagsins heldur ættu stjórnmálin að láta það hinum svokallaða markaði það eftir; markaðurinn myndi skila af sér mun betra samfélagi en stjórnmálin gætu nokkru sinni gert. Hlutverk stjórnmálanna væri ekki að skilgreina almannahag og stýra uppbyggingu samfélagsins út frá honum heldur að skilgreina rétt einstaklingsins gagnvart valdi; og þá fyrst og fremst ríkisvaldinu. Á sama tíma og einstaklingurinn var varinn gegn ríkisvaldinu var auðvaldinu sleppt lausu án eftirlits eða aðhalds og var auk þess gefin öll réttindi einstaklingsins. Vald auðvaldsins óx því langt umfram völd ríkisins, réttur þess til að sölsa undir sig eignir almennings, auðlindir og áður opinber verkefni, réttur þess til að koma sér undan skattgreiðslum, voru bundin í alþjóðlega samninga og stjórnarskrár túlkaðar þannig að óheimilt væri að hefta yfirgangi þess.

Stjórnmálin voru afstjórnmálavædd á tíma nýfrjálshyggjunnar; fjölluðu ekki lengur um jöfnuð, réttlæti og frelsi alþýðunnar heldur gengust inn á að trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar um að ef við færðum hinum auðugu meiri auð og meira vald myndi það færa öllum blessun og giftu.

Ástæða þess að hagsmunasamtök alþýðunnar, verkalýðshreyfingin og þeir stjórnmálaflokkar sem hún hafði getið af sér, féllust á þennan boðskap og gengust nýfrjálshyggjunni á hönd var trú forystu samtaka almenning um verðleikasamfélagið. Forystan deildi þeirri trú með auðhyggju nýfrjálshyggjunnar að þau sem fljóta ofan á í samfélaginu geri það fyrir eigin verðleika. Og að þau sem grafist undir óréttlæti samfélagsins geri það vegna skorts á verðleikum. Auðvaldið trúði að hin ríku væru rík vegna þess að þau ættu það skilið, og að hin fátæku væru fátæk vegna þess að þau ættu það skilið. Og hin nýja elíta sem spratt af samtökum almennings trúði að þau hefðu komist til metorða og valda fyrir eigin verðleika, og að hin valdalausu væru valdalaus vegna þess að þeim skorti verðleika. Þessir tveir hópar, auðvaldið og hin brahmíska forysta fyrrum baráttutækja almennings, voru náttúrulegir bandamenn á tímum nýfrjálshyggjunnar og bundust samtökum um að draga úr valdi hins lýðræðislega vettvangs; flytja sem flestar ákvarðanir út á markaðinn til auðvaldsins eða festa í samninga og skuldbindingar undir forræði hinnar brahmísku forystu.

Afstjórnmálavæðing stjórnmálanna kæfði stéttabaráttuna, sem hafði byggt upp það réttlæti sem fannst í samfélögum Vesturlanda. Hún flutti ákvarðanir um gengi og vexti út á markaðinn, þar sem hin ríku gátu mótað umhverfi efnahagslífsins að eigin þörfum. Afstjórnmálavæðingin flutti mótun húsnæðismarkaðarins, uppbyggingu innviða, áherslur í heilbrigðis- og menntakerfinu, nýtingu auðlinda og allar aðrar grundvallarákvarðanir um mótun samfélagsins frá félagslegum rekstri og frá hinum lýðræðislega vettvangi yfir á hinn svokallaða markað; samkeppnis-, markaðs-, alþjóða- og einkavæddu þær grunnstoðir sem byggðar höfðu verið upp af samtakamætti alþýðunnar á síðustu öld. Í stað lýðræðislegrar umræðu og ákvarðana komu annars vegar arðsemiskröfur hinna auðugu, sem vildu auðgast enn frekar, og hins vegar tæknileg eða lagaleg rök valdakerfis verðleikafólksins, sem réttlæti valdarán sitt með því að það væri hæfara til að ákveða hvernig samfélagið mótaðist en alþýða manna, vissi jafnvel betur en alþýðan hvað alþýðunni væri fyrir bestu.

Þegar Hrunið 2008 afhjúpaði afleiðingar af þessu valdaafsali hins lýðræðislega vettvangs.
Ljósmynd: Kvennablaðið.

Þegar Hrunið 2008 afhjúpaði afleiðingar af þessu valdaafsali hins lýðræðislega vettvangs og ekki síst óréttlætið sem eftirhrunsárin drógu fram; kom í ljós að þeir stjórnmálaflokkar sem höfðu skapað þetta ástand höfðu engar lausnir til að mæta því. Í raun engin áform um að vinda ofan af því. Flokkarnir voru svo langt gegnir inn í afstjórnmálavæðingu stjórnmálanna að þeir voru sannfærðir um að þeir mættu ekki bregðast við út frá hagsmunum almennings eða þeirra sem höfðu orðið verst úti vegna Hrunsins og afleiðinga þess, heldur bæri þeim að endurreisa völd þeirra sem höfðu orðið valdir af Hruninu; flokkarnir töldu hendur sínar bundnar. Þeir mættu ekki breyta rétt, og ættu ekki að gera það.

Það var í þessu umhverfi sem slagorðið Let’s take back control varð til þess að meirihluti almennings í Bretlandi kaus að ganga út úr Evrópusambandinu, sem á áratugum nýfrjálshyggjunnar hefur þróast frá því að vera samfélagslega mótandi afl út frá hagsmunum alþýðunnar, eins og þeir voru skilgreindir á eftirstríðsárunum, yfir í að vera hagsmunatæki alþjóðakapítalismans og valdatæki verðleikafólksins, þeirra sem byggðu starfsframa sinn innan stjórnmála og stjórnsýslu nýfrjálshyggjuáranna. Fyrir meirihluta Englendinga var Evrópusambandið bæði tákn og helsti gerandi í nýfrjálshyggjuvæðingu landsins. Þetta var yfirborðslegt mat, blandað sannfæringu um að ógnin kæmi að utan; en engu að síður byggt upp af raunverulegri upplifun á skaða almennings af valdaafsali hins lýðræðislega vettvangs, hvaða afleiðingar það hefur á réttindi og lífskjör almennings þegar hann afsalar sér því valdi sem hann hafði byggt upp í krafti fjöldans.

Let’s take back control lýsti tilfinningu alþýðunnar undir lok nýfrjálshyggjuáranna. Árangurinn af þessu slagorði í kosningunni um Brexit dregur fram hversu alvarlega stjórnmálin höfðu forðast umræðu um meginsöguþráð síðustu áratuga; þegar almenningur var sviptur völdum og stjórnmálin afstjórnmálavædd og hversu vanbúnir stofnanaflokkarnir voru undir þessa kröfu. Þótt í grunninn sé þetta krafa um aukið vald til almennings í gegnum hinn lýðræðislega vettvang gat Verkamannaflokkurinn ekki brugðist við, ekki frekar en aðrir fyrrum sósíalískir flokkar í Evrópu sambærilegri kröfu. Í flestum tilfellum sökuðu þessir fyrrum flokkar almennings fólk um popúlisma, sem gerði kröfu um að almenningur fengi aftur það vald sem flutt hafði verið frá hinum lýðræðislega vettvangi og yfir á markaðinn eða inn í samninga og skuldbindingar, sem á endanum voru mótaðar til að verja hagsmuni auðvaldsins gegn ríkisvaldinu, sem í lýðræðissamfélagi ætti að tilheyra alþýðunni.

Eftir Hrun hefur hluti vinstrisins áttað sig á þessu og skorið sig frá fyrrum vinstri flokkum
Ljósmynd: Chuttersnap / Unsplash

Uppganga popúlista, sem því miður voru til að byrja með fyrst og fremst flokkar byggðir á hægri hugmyndafræði, útlendingaandúð og efasemdum um mannvirðingu og lýðréttindi minnihlutahópa, var því ekki ógn við lýðræðið heldur miklu fremur krafa um endurreisn þess eftir niðurbrot nýfrjálshyggjuáranna. Eftir Hrun hefur hluti vinstrisins áttað sig á þessu og skorið sig frá fyrrum vinstri flokkum, sem höfðu algjörlega fallist á valdaafsal hins pólitíska vettvangs. Þeir vinstri flokkar sem tóku þátt í valdaafsalinu eru smátt og smátt að hverfa af hinum pólitíska vettvangi, verða þar áhrifalausir, enda erindislausir í eftirhrunsstjórnmálunum, sem snúast æ meir um með hvaða hætti almenningur getur aukið völd hins lýðræðislega vettvangs til að geta betur stýrt uppbyggingu samfélaganna svo þau mótist af hagsmunum almennings en vinni ekki gegn þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: