- Advertisement -

Varð svekktari eftir fundinn en fyrir hann

Ég tel nokkuð ljóst að engin sátt verði um þessi málalok.

„Ég sat í morgun fund með dómsmálaráðherra, fangelsismálastjóra, nýjum lögreglustjóra Norðurlands eystra, bæjarstjóra og bæjarstjórn Akureyrarbæjar vegna fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins á Akureyri,“ skrifar Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.

„Stundum fara af stað heiftúðlegar umræður í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sem einkennast af hálfkveðnum vísum og röngum upplýsingum, en síðan þegar fólk sest niður og talar saman þá eyst skilningurinn manna á milli og myndin skýrist. Sú varð því miður ekki raunin í morgun. Ég varð enn svekktari eftir fundinn en fyrir hann, ferlið er í raun ekkert annað en óboðlegt. Ekkert samráð var haft við lögregluembættið hér né bæjarstjórn, gögnin takmörkuð og framtíðarsýnin ekki sannfærandi. Svo virðist sem fangelsismálin hafi verið skoðuð einangrað án þess að horfa til samlegðaráhrifa við starf lögreglunnar hér og hvað þá að tillit væri tekið til byggðasjónarmiða,“ skrifar Hilda Jana.

„Það er gömul saga og ný að óvinsælar ákvarðanir eru teknar í júlí þegar flestir eru í sumarfríum og vilja frekar hlusta á fossnið og fuglasöng en að pirra sig á pólitík. Það er ekki nóg með að ákvörðunin sé kynnt í byrjun júlí og eigi taka gildi í lok júlí, heldur var á þeim tíma var ekki búið að ráða nýjan lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, hún tók til starfa í gær! Þó að ég sé mjög ósátt við þetta mál, þá vil ég taka það fram að ég er mjög ánægð með að dómsmálaráðherra ætli sér að beita sér fyrir því að stytta boðunarlista í fangelsi, enda um ákaflega mikilvægt verkefni að ræða. Þá er ég einnig ánægð með að hún hafi komið og fundað með okkur og hlustað á það sem við höfðum fram að færa. Ég bind enn vonir við að dómsmálaráðherra hætti við þessa ákvörðun eða a.m.k fresti henni og nýti tímann til að fara faglega og heildstætt yfir málið. Ég tel nokkuð ljóst að engin sátt verði um þessi málalok,“ skrifar Hilda Jana á Facebook.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: