- Advertisement -

Vísar fullyrðingum Áslaugar Örnu á bug

Magnús Davíð Norðdahl lögmaður skrifar:

Magnús Davíð Norðdahl.

Í dag var stefna og beiðni um flýtimeðferð lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd egypsku fjölskyldunnar.

Málsmeðferðarbrotum stjórnvalda er lýst í stefnunni og þar með talið hvernig stjórnvöldum láðist að framkvæma sjálfstætt og heildstætt mat á hagsmunum barnanna. Þetta er kjarnaatriði. Enn fremur var ekki kannað hvort móðir og dóttir væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu með hliðsjón af því að yfir 90% kvenna í Egyptalandi hafa orðið fyrir kynfæralimlestingu. Engin athugun fór fram á því hvort móðir og dóttir væru fórnarlömb slíks ofbeldis eða hvort þær ættu slíkt á hættu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Yfirlýsingu dómsmálaráðherra í fjölmiðlum, þess efnis að stjórnvöld hafi gætt að ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í þessu máli, er alfarið vísað á bug.
Skjáskot: RÚV.

Útlendingastofnun hefur áður fjallað um hversu algengar kynfæralimlestingar kvenna eru í Egyptalandi en sem fyrr segir hafa yfir 90% kvenna þar í landi mátt þola slíkt ofbeldi. Þrátt fyrir það var ekki minnst einu orði á þetta atriði í ákvörðunum Útlendingastofnunar vegna kvenkyns meðlima Khedr fjölskyldunnar.

Yfirlýsingu dómsmálaráðherra í fjölmiðlum, þess efnis að stjórnvöld hafi gætt að ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í þessu máli, er alfarið vísað á bug. Hver sá sem kynnir sér málið getur séð að ekki var framkvæmt fullnægjandi mat á hagsmunum barnanna. 

Varðandi stúlkuna í fjölskyldunni þá var hún 10 ára gömul þegar umsókn um hæli var lögð fram. Þá var tekið viðtal við hana. Útlendingastofnun átti með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og enn fremur útfærslu á henni í 25. gr. laga um útlendinga að kanna þetta atriði enda orðið „kynfæralimlesting“ sérstaklega nefnt í ákvæðinu.

Í mati á hagsmunum barna á meðal annars að taka tillit til félagslegs þroska, velferðar og öryggis. Hvernig er hægt að halda því fram að slíkt mat á hagsmunum stúlkunnar hafi verið framkvæmt og sé fullnægjandi þegar engin athugun fór fram á því hvort stúlkan hafi orðið fyrir eða eigi á hættu á að verða fyrir kynfæralimlestingu, komandi frá landi þar sem slíkt er gríðarlega algengt? Málsmeðferðin er þannig í andstöðu við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eins og hún verður skýrð með hliðsjón af ákvæðum útlendingalaga sem beinlínis fjalla sérstaklega um kynfæralimlestingar og mikilvægi þess að líta til þessa atriðis.

…og er klárt brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þá skal nefnt til viðbótar að stjórnvöld tóku ekki viðtal við næstyngsta barnið, þrátt fyrir að það hafi verið á 6. aldursári við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar útlendingamála. Mat á hagsmunum barns er af augljósum ástæðum algjörlega ófullnægjandi þegar ekki er haft fyrir því að ræða við barnið.

Sjálfstætt og heildstætt mat á hagsmunum barnanna í Khedr fjölskyldunni fór aldrei fram og er klárt brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég hef fulla trú á því að mál þetta leysist með farsælum hætti fyrir fjölskylduna, annaðhvort fyrir dómi eða hjá kærunefnd útlendingamála sem á enn eftir að taka afstöðu til fjögurra endurupptökubeiðna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: