- Advertisement -

Yfirlýsing Loga kemur 77 árum of seint

Sósíalistaflokkurinn er svar við nýfrjálshyggjuvæðingu vinstrisins og getuleysi gömlu flokkanna til að snúa af braut.

Það er auðvitað erfitt að draga ályktanir af margflóknum breytingum stjórnmálaumhverfisins, en þó má fullyrða að kenning Sigríðar Á. Andersen er röng um að ástæða niðurdýfu Samfylkingarinnar undanfarna mánuði sé sú að forysta flokksins hafi hafnað stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í stutt máli má segja að þessi kenning standist enga skoðun.

Rangt af tveimur ástæðum

Í fyrsta lagi þá er langt síðan Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir að flokkurinn hafnaði samstarfi við Sjálfstæðisflokkurinn, en fylgistap Samfylkingarinnar byrjaði ekki fyrr en í upphafi þessa árs. Fyrir þann tíma, undir yfirlýsingum um að Samfylkingin færi ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, mældist Samfylkingin með 14-19% í könnunum Gallup, 17% um áramótin. Fall flokksins niður í kjörfylgið frá 2017 á sér því aðrar skýringar.

Í öðru lagi sýnir hnignun systurflokka Samfylkingarinnar í Evrópu að þeim er frekar refsað af kjósendum sem hafa gengið til ríkisstjórnarsamstarfs til hægri en hinum sem ekki hafa gert það. Hollenski Verkmannaflokkurinn og þýski Sósíaldemórkataflokkurinn eru dæmi um flokka sem eru illa leiknir af slíku samstarfi; sá þýski hefur tapað meira en helming kjósenda sinna og sá hollenski meira en fjórum af hverjum fimm kjósendum sé miðað við stöðuna 1980, áður en nýfrjálshyggjan tók við sem samfélagssáttmáli okkar heimshluta. Sama má segja um Sósíaldemókrata í Austurríki þar sem löng hefð er fyrir stjórnarsamstarfi yfir miðjuna, sá flokkur hefur misst frá sér um 3/5 kjósenda sinna.

Evrópusambandið ýtti undir hnignun sósíaldemókratíunnar

Samstarf sósíaldemókrata við hefðbundna hægrið innan Evrópusambandsins er líka án efa ein ástæðan fyrir hnignun sósíaldemókratíunnar. Málamiðlun við hægrið innan Evrópusambandsins og síðan sameiginleg skilaboð hægrisins og sósíaldemókratíunnar til almennings um að niðurstaða þessarar málamiðlunar væri eini valkosturinn hefur grafið undan krataflokkunum. Sósíaldemókratían, sem eins og aðrir angar sósíalismans, var höfuðvalkosturinn á móti auðræði hægrisins öll eftirstríðsárin varð annar stóplinn undir elítuvæðingu stofnanastjórnmálanna og valdaafsals lýðræðisvettvangsins á nýfrjálshyggjuárunum. Þegar nýfrjálshyggjan féll 2008 kom innihaldsleysi sósíaldemókratíunnar í ljós og henni var refasð harðar af kjósendum en hinu hefðbundna hægri.

Uppgagngur hægri-popúlisma í Evrópu byggir á þessari stöðu sósíaldemókratíunnar. Fall hennar er forsenda uppgangs hægri-popúlista í Evrópu. Hið nýja popúlíska hægri hefur byggt sókn sína á kjósendum sem voru upp úr stríði hefbundið alþýðufylgi sósíaldemókrata. Eins og Thomas Piketty hefur bent á fjarlægðust þessir flokkar grasrót sína strax upp úr 1960 og það rof varð síðar ein af forsendum uppgagns nýfrjálshyggjunnar, sem byggði á að forysta sósíaldemókratísku flokkanna var ginkeypt fyrir þessari hugmyndafræði vegna tengslarofs við lágtekjuhópa, sem báru allar byrðar af niðurbroti velferðarkerfis, skattabreytingum og alþjóðavæðingu stórfyrirtækja á nýfrjálshyggjuárunum.

Hægri popúlstar gerðu út á þörf þessara hópa fyrir málsvara fyrir hrun nýfrjálshyggjunnar en fengu svo byr í seglin þegar hún hrundi 2008. Þá afhjúpaðist að sósíaldemókratar tóku ætíð málstað alþjóðavædds fjármagns og staðbundins auðvalds og voru ófærir um að byggja nýja stefnu eftir hrun nýfrjálshyggjunnar á grunni þarfa hinna fátækari og valdalauu.

Sósíaldemókratían nánast horfin í sumum löndum

Þetta skrítna graf sem hér fylgir sýnir styrk sósíaldemókratískra flokka frá stríðslokum fram á okkar tíma. Uppsetningin er einföld, teknar eru stikkprufur á tíu ára fresti frá 1950 til 2020. Súlurnar sína meðaltalsfylgi þeirra flokka sem voru til allan tímann en línurnar sýna fylgi einstaka flokka.Það má bæði lesa það af súlunum og flestum línanna að þessir flokkar héldu fylgi sínu eftirstríðsárin fram að upphafi nýfrjálshyggjunnar 1980. Þá hefst hæg hrörnun sem síðan leiðir til falls eftir hrun nýfrjálshyggjunnar 2008.

Ef við athugum fall einstakra flokka frá 1980 þá er hollenski Verkamannaflokkurinn í verstum málum, hefur tapað 83% af fylgi sínu. Næstir koma PASOK í Grikklandi og franski Sósíalistaflokkurinn, fyrrum burðarflokkar í stjórnmálum sinna landa en sem eru nú nánast orðnir að sögulegri neðanmálsgrein. Þessir flokkar hafa fallið úr um 1/4 atkvæða langt niður fyrir tíu prósentin.

Sósíaldemókratar Þýskalands og Austurríkis eru nú aðeins með tæpan helming af þeim atkvæðum sem þessir flokkar höfðu 1980. Sósíaldemókratar í Skandinavíu; Svíþjóð, Noregi og Danmörku; hafa tapað 1/3 hluta af sínu fylgi eins og systurflokkur þeirra í Sviss. Finnski flokkurinn og sá í Lúxemborg hafa tapað um 1/4 hluta af fylginu.Þeir flokkar sem hafa tapað minnstu eru Verkamannaflokkurinn í Bretlandi, sem hefur skroppið saman um 13% en er eftir sem áður sundurtættur af innanflokksátökum. Spænski Sósíalistaflokkurinn stendur nánast í stað en portúgalski Sósíalistaflokkurinn er í dag stærri en hann var 1980.Ef við tökum alla flokkana saman þá hefur sósíaldemókratían fallið úr 32% árið 1980 í 20% í dag, 38% af kjósendum hafa snúið sér annað. Ástæðan fyrir hrörnuninni er ekki bara samstarf við hægrið heldur almenn upptaka nýfrjálshyggjunnar sem grunn undir stefnu flokkanna. Eini flokkurinn sem ekki hefur minnkað er sá pórtúgalski, sem leiðir nú ríkisstjórn með enn róttækari sósíalistum innanborðs, samsteypustjórn frá vinstri miðju og til vinstri.

Er Ítalía fordæmi?

Ég sleppti Ítalíu vegna þess að ítölsk stjórnmál sprengja alla ramma. Árið 1980 var ítalski kommúnistaflokkurinn enn næst stærsti flokkurinn á eftir Kristilegum demókrötum. Báðir þessir flokkar eru nú horfnir af sviðinu og líka Sósíalistaflokkurinn, Sósíaldemókrataflokkurinn og Róttæki flokkurinn eins og allt vinstrið frá 1980 eins og það leggur sig. 1980 voru flokkar með sósíalískar rætur með 49% fylgi en slíkir flokkar eru aðeins með 22% fylgi í dag og sósíalismi þeirra ansi útþynntur.

Einhvern tímann var sagt að Ítalía væri fordæmi fyrir stjórnmálaþróun annars staðar í Evrópu. Það átti við um uppgagn fasismans á millistríðsárnum, ef til vill afgerandi vinstri sveiflu á eftirstríðsárunum en örugglega um upplausn stofnanastjórnmálanna. Þau hófust á Ítalíu fyrir aldamót og nú er stjórnmálaumhverfið þar allt önnur skepna en einkenndi eftirstríðs- og nýfrjálshyggjuárin.

Samkvæmt könnunum er Norðurbandalag Salvini stærsti flokkurinn með um 23% fylgi. Þetta er róttækur hægri pópúlískur flokkur. Næstir koma jafn stórir með um 18% fylgi Lýðræðisflokkurinn, sem er sósíaldemókratískur flokkur og í dag einu leyfarnar af stofnanastjórnmálum eftirstríðsáranna, og Bræður Ítalíu, últrahægri popúlistaflokkur. Þá kemur 5stjörnu hreyfingin, popúlískur flokkur með félagshyggjutaug, með 16% og síðan Áfram Ítalía, flokkur Berlusconi sem er samsuða upp úr kristilegum demókrötum, íhaldsmönnum og frjálslyndum pökkuð inn í popúlískar umbúðir.Segja má að elítustjórnmálin séu dauð á Ítalíu. Stjórnkerfið reynir að viðhalda þeim með þjóðstjórn undir stjórn Mario Draghi, fyrrum bankastjóra Seðlabanka Evrópu og þar áður seðlabanka Ítalíu; einskonar embættismanni Ítalíu nr. eitt. En hjá kjósendum er þetta kerfi fallið. Það á svo eftir að koma í ljós hvers konar samfélag, stjórnsýsla og stjórnmál, verða til úr umbreyttum stjórnmálum þar sem hreinir popúlistaflokkar njóta um 60% fylgis og restin af stjórnmálunum tekur mið af yfirburðum popúlismans.

Gamla kerfið hrunið, nýtt kerfi ekki orðið til

Kannski er þetta óhjákvæmileg þróun. Ríkjandi tilfinning almennings fyrir valdaleysi sínu gagnvart samfélagsþróun nýfrjálshyggjuáranna brýst út í popúlískri uppreisn, kröfu um að almenningur ráði en ekki embættismenn, auðvaldið, elítan, báknið eða hvernig svo menn vilja skilgreina andstæðing almennings í þessu valdastríði.Sambærilega þróun má sjá annars staðar í Evrópu. Stjórnmálakerfið eins og það var um 1980, við upphaf nýfrjálshyggjuáranna, hefur mikið látið á sjá í Frakklandi, Grikklandi og á Spáni. Sama má segja um Holland og Austurríki og margt bendir til mikillar umbreytinga í kosningunum í Þýskalandi síðar á árinu.Í þessum löndum og líka í Danmörku, Bretlandi, Svíþjóð og víðar hafa nýir popúlískir flokkar í raun stýrt stjórnmálaumræðunni á liðnum árum, þótt þeir hafi ekki alls staðar komist í formleg völd. Við erum því í raun komin út úr stjórnmálaumhverfi eftirstíðsáranna í öllum löndum okkar heimshluta. Birtingarmyndir þessa ástand eru kannski ólíkar milli landa, en það er augljóst að straumhvörf hafa orðið.

En það er ekki hægt að spá hverskonar kerfi mun taka við. Sú mynd sem blasir við á Ítalíu og sem sjá má sýnishorn af í öðrum löndum Vestur-Evrópu, að ekki sé talað um ríki Austur-Evrópu sem fengu yfir sig nýfrjálshyggjuna í enn stærri skömmtum og þar sem popúlismi er algjörlega drottnandi yfir stjórnmálunum, er of geggjuð til að hægt sé að trúa að þetta sé kerfið sem mun taka við. En ef ekkert nýtt fæðist virðist sem Evrópa sé að sigla inn í ástand sem er kannski líkast því sem ríkti í Suður-Evrópu á eftirstríðsárunum, Perónistar á öðru hverju horni og fasisminn hangandi yfir.

Samstarf til hægri reglan í íslenskum stjórnmálum

Það sem er sérstakt við íslenska vinstrið er að ríkisstjórnarsamstarf yfir miðjuna til hægri var nánast regla allt frá stríðslokum. Þegar kosið verður í haust mun Alþýðuflokkurinn/Samfylkingin hafa verið í stjórnarandstöðu í um 67 ár af 105 og hálfs árs sögu sinni. Flokkurinn hefur aðeins verið í stjórn 36,5% af líftíma sínum, eða í 38,5 ár. Og af þessum 38,5 árum hefur flokkurinn verið með Sjálfstæðisflokknum í stjórn í 26,5 ár. Aðeins 10 ár af stjórnarsetu Alþýðuflokks/Samfylkingar hefur verið án Sjálfstæðisflokks, rétt rúmlega 30% tímans sem flokkurinn hefur verið í stjórn.Sambærileg talning hjá VG og forverum þess flokks (Kommúnistaflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn eldri og Alþýðubandalagið) sýnir að flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu 68 ár af 91 árs sögu sinni, eða 75% tímans. Og af 22 ára stjórnarsetu hefur flokkurinn verið 9,5 ár með Sjálfstæðisflokknum í stjórn, 12,5 ár án hans.

Í lok stríðsins voru þessir flokkar báðir í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, Nýsköpunarstjórninni. Með myndun þeirrar stjórnar tókst Ólafi Thors að kljúfa á milli flokka verkalýðshreyfingarinnar og Framsóknarflokks samvinnuhreyfingarinnar, en bandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks hafði haldið flokkum borgarastéttarinnar meir og minna frá völdum frá 1927 fram í seinna stríð. Markmiðið með stofnun Sjálfstæðisflokksins var að brjóta þetta bandalag upp og það tókst í stríðslok. Síðar lék flokkurinn sér að því að kljúfa á milli krata og róttækari sósíalista og draga síðan Framsóknarflokkinn svo nærri sér að hann var nánast meðvitundarlaus orðinn þegar samvinnuhreyfingin leystist upp að mestu

.65 ár frá síðasta kosningabandalagi

Samstarf frá vinstri og yfir til hægri var því einkenni íslenskra stjórnmála allt frá stríði og ekki aðeins hluti nýfrjálshyggjuáranna. Ísland er að því leyti líkara Austurríki en Hollandi eða Þýskalandi. Þrátt fyrir að vinstri flokkum sé refsað af íslenskum kjósendum fyrir að mynda þessi bandalög, þá virðist forysta flokkanna ekki ráða við sig. Samsteypustjórnir yfir miðjuna eru miklu fremur einkenni íslenskra stjórnmála en skýrir kostir til hægri eða vinstri.Í dag eru 65 ár frá síðasta kosningabandalagi þeirra flokka sem spruttu upp úr almannasamtökunum stóru, verkalýðs- og samvinnuhreyfingum. 1956 stillti Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur sér saman sem valkosti á móti Sjálfstæðisflokknum og ætluðu að spila á kosningakerfið og ná meirihluta þings út á rúmlega 35% fylgi. Það tókst ekki, flokkarnir bættu við sig þremur þingmönnum þótt samanlagt fylgi þeirra hafi farið úr 37,5% í tæplega 34% en þá vantaði tvo þingmenn í viðbót til að ná meirihluta á þingi.

Þessi tilraun leiddi til þess að kjördæmakerfinu var breytt 1959.

Búnir að taka út refingu fyrir auðvaldssamvinnu

Fyrir utan tímabilið frá 1927 fram að stríðsbyrjun er ekki hægt að benda á neitt tímabil þar sem flokkar alþýðusamtaka hafa haft afgerandi áhrif á samfélagsumgjörðina án neitunarvalds auðvaldsflokkana. Til samanburðar þá hafa sósíaldemókratar í Svíþjóð verið í stjórn í 82 ár af 104 árum frá lokum fyrra stríðs og aldrei með stuðningi hægri flokka, á eftirstríðsárunum oftast með stuðningi kommúnista eða rótttækra sósíalista.Það er því ekki hægt að rekja hnignun Samfylkingarinnar og VG eftir Hrun til samstarfs yfir til hægri. Fremur mætti segja að slíkt samstarf á árum áður hafi verið ástæða þess að þessir flokkar náðu aldrei styrk vinstri flokkanna á Norðurlöndum og í Evrópu.

1980 var fylgi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags 37,1% en fylgi sambærilegra flokka í Noregi 46,7%, í Danmörku 47,9% og í Svíþjóð 48,8%. Í dag er fylgi þessara flokka 29,0% á Íslandi (fylgistap sem mælist 22%) en 35,8% í Noregi, 38,3% í Danmörku og 36,7% í Svíþjóð (fylgistap sem mælist 20-25%). Í nýjustu könnun Gallup mælist samanlagt fylgi VG og Samfylkingarinnar um 25%, svo það er líklegra en ekki að fylgistapið haldið áfram.

Þar sem engin dæmi eru um það á Norðurlöndunum að vinstri flokkar leiði auðvaldsflokka til valda má segja að sambærilegt fall vinstrisins hér og þar sé afleiðing nýfrjálshyggjuáranna með tilheyrandi auðmannadekri stjórnmálastéttarinnar og minni tengsla forystu alþýðuflokkanna gömlu við grasrót venjulegs launafólks. Íslensku flokkarnir voru búnir að taka út sína refsingu fyrir samstarfið til hægri, en eru nú að taka út refsingu fyrir nýfrjálshyggjuvæðinguna.

Í straumhvörfum skipir saga og status engu máli

Og horfurnar eru ekki góðar fyrir þessa flokka þegar litið er til Evrópu. Flokkar með rætur í verkalýðshreyfingunni en sem hafa afneitað þeim uppruna virðast aðeins geta skroppið saman í Evrópu. Og það eru í raun engin takmörk fyrir hversu mikið þeir geta minnkað. Sagan hjálpar þeim ekki, það gildir einu hvort þetta eru flokkar sem leiddu uppbyggingu velferðaríkja eftirstríðsáranna. Kjósendum er alveg sama um slíkt.

Íslensku flokkarnir geta ekki bent á neitt sambærilegt. Sú uppbygging sem hér varð var fremur afrakstur verkalýðshreyfingarinnar sjálfra í samningum við borgaralega stjórnmálaflokka. Íslensku vinstri flokkunum tókst ekki að skapa tækifæri til raunverulegra sigra, umfram það sem borgarastéttin gat sætt sig við.Eina tímabilið sem borgarastéttinni var haldið frá völdum var tímabil fyrir seinna stríð sem nú er að mestu gleymt og var leitt af Framsóknarflokknum, meðan hann átti sér raunverulega grasrót alþýðufólks.

Þrátt fyrir langa sögu eru Samfylkingin og VG því rokgjarnir flokkar, þeir gætu horfið í næstu eða þar næstu kosningum, um leið og stjórnmálaumræðan hverfist um óánægju almennings með stjórnmálaþróun nýfrjálshyggjuáranna.

Samfylkingin hluti vandans, ekki lausnin

Ég byrjaði þennan lestur á að minnast á mat Sigríðar Á. Andersen á þeirri yfirlýsingu forystu Samfylkingar að hún hafnaði stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki. Í ljósi aðstæðna í íslenskum stjórnmálum í dag og sögu vinstri flokkanna kemur þessi yfirlýsing of seint, líklega 77 árum of seint, og lýsir kannski óskhyggju fremur en skörpu mati á stjórnmálunum.

Það er enginn að fara að fela Samfylkingunni forystu í einskonar kosningabandalagi gegn Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin vill hafa Viðreisn, Framsókn og VG í slíku kompaníi en allir þessir flokkar kjósa frekar að vera stuðningsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Og gagnvart flestum kjósendum er Samfylking frekar hluti af vandanum með Sjálfstæðisflokknum en að hún sé lausnin. Meirihluti íslenskra kjósenda telur sig svikinn af stofnanastjórnmálunum, alveg eins og á við um meirihluta kjósenda um alla Evrópu og um allan heim. Og Samfylkingin er alveg jafn mikill hluti þessari stjórnmála og Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, VG og Viðreisn.Umbreyting íslenskra stjórnmála verður því ekki á forsendum Samfylkingarinnar. Umbreytingin mun felast í minnkun og áhrifaleysi Samfylkingarinnar og annara flokka sem mótuðu stjórnmálaumhverfi nýfrjálshyggjuáranna. Hvað það verður sem ýtir þessum flokkum burt er vandi um að spá.

En popúlismi Sósíalistaflokksins, lýðhyggja hans og krafan um að samfélagið verði byggt upp út frá væntingum og vilja almennings en ekki mati sérfræðinga, elítu og auðvalds er hluti þessara breytinga á íslenskum stjórnmálum. Sósíalistaflokkurinn er svar við nýfrjálshyggjuvæðingu vinstrisins og getuleysi gömlu flokkanna til að snúa af braut.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: