- Advertisement -

400 hælisleitendur á Suðurnesjum

Hælisleitendur á Suðurnesjum eru ekki 30% íbúanna.

Oddný Harðardóttir.

Oddný Harðardóttir skrifaði:

Ég er miður mín eftir að hafa horft á Silfrið og umræðu þingmanna um útlendingafrumvarpið. Umræðan var um móttöku þeirra sem leita hælis hér á landi.

Umræðan var ekki um kvótaflóttafólk eða innflytjendur sem hingað koma til að vinna.

Fulltrúi Vinstri grænna sem jafnframt er talsmaður útlendingamálsins fyrir hönd meiri hlutans ruglaði öllu saman. Hvort ætli hún hafi gert það til að ýta undir útlendingahatur eða af þekkingarleysi?

Og hún var að stilla þjónustu við íslensk börn upp á móti þjónustu við erlend börn sem hér búa.

Hælisleitendur á Suðurnesjum eru ekki 30% íbúanna.

Á Suðurnesjum býr og starfar fólk af erlendum uppruna, borgar skatta og útsvar, á börn sem gengur í skóla eins og önnur börn og eiga að sjálfsögðu rétt á heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu hins opinbera líkt og aðrir íbúar.

Innflytjendurnir auðga samfélagið og við getum ekki án þeirra verið.

Hælisleitendur eru hins vegar þessa dagana um 400 á Suðurnesjum eða rúmlega 1% íbúa.

Hér er brot úr umræðunni þar sem þingmaður VG tjáir sig um Suðurnesin sem hún kallar Reykjanes, og vill alls ekki að sama staða verði í öðrum sveitarfélögum.

ES: Þingmaðurinn hringdi og sagði að ég færi með ósannindi um hana. Ég vona satt að segja að ég hafi misskilið hana. Þegar spyrillinn spyr hvort ekki sé hægt að taka á móti fleirum hælisleitendum og nefnir sveitarfélög svarar þingmaður VG með því að benda á að 30% íbúanna á Suðurnesjum séu af erlendum uppruna og spyr hvort við viljum yfirfæra það hlutfall á önnur sveitarfélög og fer svo að tala um biðlista fyrir börn. Erfitt er að skilja þingmanninn á annan veg en að þessi staða sé mikið vandamál og þess vegna getum við ekki tekið á móti fleiri hælisleitendum. Ég hvet ykkur til að hlusta á Silfrið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: