- Advertisement -

Við eigum að bjóða hingað fulltrúum hinna kúguðu

Það er nóg af ríkisstjórnum til að styðja valdið og kúgarann, tilgangslaust að bæta okkar litlu lóðum á þá vogarskál.

Gunnar Smári skrifar:

Mér finnst að utanríkisstefna Íslendinga eigi að taka mið af hagsmunum hinna kúguðu; að við eigum að styðja frelsisbaráttu Kúrda, Palestínumanna, Grænlendinga, Skota og Katalóna; að við eigum að styðja kvenréttindi þar sem konur eru kúgaðar, verkafólk þar sem það er misnotað, hinsegin fólk þar sem það er ofsótt og fátækt fólk og valdalaust alls staðar. Það er nóg af ríkisstjórnum til að styðja valdið og kúgarann, tilgangslaust að bæta okkar litlu lóðum á þá vogarskál. Við eigum því að styðja afríkanska Ameríkana í baráttu þeirra gegn ofbeldi og kúgun stjórnvalda í Bandaríkjunum, gegn morðum lögreglunnar, gegn tilgangslausum handtökum og löngum fangelsisdómum, gegn fátækt og niðurbroti félagslegra réttinda, heilbrigðis- og menntatekerfis, gegn svipting borgaralegra réttinda og hömlum á kosningarétti og auðvitað gegn dauðarefsingum.

Utanríkisstefna okkar á fyrst og síðast að litast af samstöðu með hinum kúguðu og valdalausu. Það er ekki nóg að standa hjá og horfa á ofbeldið. Það er svívirðilegt að bjóða hingað heim og hampa stjórnvöldum sem styðja það, með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu. Við eigum að bjóða hingað heim fulltrúum hinna kúguðu, ekki bara frá Bandaríkjunum heldur víðar að; bjóða þeim aðstöðu til að deila reynslu og stilla strengi; ekki til að gera þeim greiða eða veita þeim aðstoð heldur svo að við getum byggt upp samfélag okkar út frá kröfum og hagsmunum hinna kúguðustu, mannvirðingu og djúpri samkennd. Það er eina réttlætingin fyrir formlegu samfélagi millum okkar; að stöðva kúgun hins sterka á hinum veika.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: