- Advertisement -

50 til 70 prósenta hækkun

Ragnar Þór Ingólfsson segir leigufélög, einkum Almenna leigufélagið, fara fram með offorsi gegn leigjendum.

RagnarÞór Ingólfsson berst gegn leiguokri. Hann skrifaði þetta:

Eftir að hafa farið yfir hluta þeirra gagna sem okkur hefur borist undanfarna daga liggur fyrir að Almenna leigufélagið sem er í eigu sjóða Gamma, til að fela raunverulegt eignarhald er virðist, sker sig nokkuð úr hvað varðar málafjölda. Dæmin eru svo sláandi. Þar voru einstaklingar og fjölskyldur að fá bréf um hvort þeir ætli að endurnýja 12 mánaða samning til næstu 12 mánaða með tugþúsunda hækkun á leigu.
Við erum að tala um 50 til 70% hækkanir á rúmum tveimur árum. Mörg tilfelli eru af einstaklingum og tekjulágum fjölskyldum sem eru að missa það litla sem eftir er af ráðstöfunartekjum til að brauðfæða sig og sína og eru margir skiljanlega í áfalli og standa ráðþrota gagnvart þessu. Valkosturinn er að taka þessu eða enda á götunni.
Við erum einnig með dæmi þess að fólk sem hefur fengið aðra íbúð innan félagsins sé rukkað um rúmlega 120.000kr. í flutningsgjald, og í flestum tilfellum er krafist hærri trygginga í nýjum samningum. Einnig er reynt að lauma inn í samninga að leigjandi greiði 95.000 kr. fyrir málningavinnu eða skili af sér nýmáluðu ef leigusamningi er sagt upp.

Úr stöðluðum pósti frá Almenna:

„Sæll XXXXX,

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú líður að lokum leigusamnings og því langar mig til þess að kanna hvort þú hafðir hugsað þér að endurnýja leigusamninginn.
Við getum boðið þér samning til allt að eins árs á kr. xxx.xxx.- á mánuði.
Endilega láttu mig vita sem fyrst hvað þú vilt gera.“

Í öllum tilfellum hækkar leigan um tugi þúsunda eins og hún hafði gert 12 mánuðum fyrr.

Tekið af heimsíðu Almenna leigufélagsins:

„Við viljum vera í fararbroddi við mótun á heilbrigðum og faglegum leigumarkaði á Íslandi. Með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi skapast ávinningur fyrir alla; samfélagið, viðskiptavini og hluthafa.

Þess vegna höfum við markað okkur samfélagsstefnu sem fjallar um réttindi leigjenda, umhverfið, jafnrétti og mannauð.
Stefna Almenna leigufélagsins er að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri, fjölskylduvænni og traustari. Við höfum markað okkur samfélagsstefnu sem við lítum á sem mikilvægt tæki til þess að ná þessum markmiðum. Við erum sannfærð um að með því að tvinna samfélagsmál saman við reksturinn tryggjum við mestan ávinning fyrir samfélagið, viðskiptavini og hluthafa félagsins.

Leigjendur
Almenna leigufélagið leggur áherslu á að leigjendur félagsins búi við húsnæðisöryggi og að milli leigjenda og leigusala ríki traust. Við viljum vera fyrsti kostur fyrir fjölskyldufólk og einstaklinga sem leitast eftir því að leigja til lengri tíma.“

Þvílík og önnur eins öfugmæli!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: