- Advertisement -

Landsréttarmálinu hvergi nærri lokið

Helga Vala Helgadóttir:

Hvert mal kostar nokkrar milljónir fyrir skattgreiðendur sem leggst þá ofan þær tæpu 150 milljónir sem þegar var greint frá í svari við fyrirspurn minni í febrúar 2021.

Landsréttarmálið er enn að draga dilk á eftir sér. Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari mætti í morgunútvarpið til að ræða stöðuna, hversu mörg mál væru undir og hvaða áhrif það hefur á réttarkerfið að þurfa enn að vera að ganga frá eftir brot dómsmálaráðherr við skipan dómara í Landsrétt. Ef þið hélduð að þetta væri frá þá fer því fjarri, því verið er að endurflytja mál sem Mannréttindadómstóllinn hefur dæmt að hafi ekki verið dæmt samkvæmt reglum um hæfi dómara.

Ríkissaksóknari bendir á að þetta sé vissulega aðallega íþyngjandi fyrir sakborning og brotaþola málanna að þurfa að fara í gegnum málin enn einu sinni, nokkrum árum síðar, en einnig verulega kostnaðarsamt. Við skulum ekki gleyma að um er að ræða fjölbreytt mál, kynferðisbrot, ofbeldisbrot, auðgunar og efnahagsbrot. Nú er það ekki svo að allir vilji endurupptöku, heldur er það á hendi sakborninga en alls eru um 80 mál undir, sem vitað er að hinir rangt skipuðu dómarar dæmdu á tímabilinu. Þetta samsvarar heilu ári af verkefnum og tilheyrandi kostnaði við málareksturinn vegna verjenda, réttargæslumanna og síðast en ekki síst þeirra saksóknara hjá ríkissaksóknaraembættinu sem ekki geta sinnt öðrum málum á sama tíma. Það býr til hala sem þarf að vinna niður næstu árin.

Þegar Landsréttarmálið var til umræðu var barið á okkur sem flögguðum hversu mikið tjón fælist í þessum vinnubrögðum. Tjón við það að stjórnvöld brugðust ekki við heldur létu Landsrétt bara lulla áfram með hina rangt skipuðu dómara þrátt fyrir að dómstólar hér og ytra hefðu dæmt að ekki hefði verið rétt að málum staðið. Vorum við sökuð um að vera að ýkja afleiðingarnar, vera að yfirdramatisera hlutina ofl. En þetta er staðan. Tíu mál eru nú þegar komin fram og allt að 70 önnur í pípunum. Hvert mal kostar nokkrar milljónir fyrir skattgreiðendur sem leggst þá ofan þær tæpu 150 milljónir sem þegar var greint frá í svari við fyrirspurn minni í febrúar 2021. Í dag mun ég kalla eftir frekari svörum um kostnað og umfang vegna lögbrots fv dómsmálaráðherra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: