- Advertisement -

Misnotuð Ríkisendurskoðun?

Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu skrifaði:

Sjálfstæði Ríkisendurskoðunar er skyndilega orðið að sérstakri ástríðu hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem telja sig hafa fundið þar grundvöll til að réttlæta upplýsingaleynd um hvernig staðið var að sölu á tugmilljarða eignum almennings gegnum Lindarhvol ehf.

Það fór minna fyrir þessum áhuga á sjálfstæði Ríkisendurskoðunar þegar forseti Alþingis og ráðherra beittu 36. gr. starfsmannalaga með algerlega fordæmalausum hætti í fyrra til að ferja þáverandi ríkisendurskoðanda yfir á vettvang framkvæmdavaldsins að vilja ráðherra.

Ég gagnrýndi gjörninginn harðlega og umboðsmaður Alþingis fann sig knúinn til að senda ráðherra bréf og minna á að ríkisendurskoðandi heyrir lagalega undir Alþingi, er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og stendur utan stjórnkerfis framkvæmdarvaldsins þegar litið er til þrískiptingar ríkisvalds. Sjá frekari umfjöllun hér í greinargerð frumvarps til breytinga á starfsmannalögum sem ég lagði fram í kjölfar þessarar uppákomu: https://www.althingi.is/altext/152/s/0830.html?fbclid=IwAR1VMSMYm2Oq_A8kfkw2iRDJd_oTwoyLTc0rxZFbm4F6Y0P7-xLFC_y54ak

Annað sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir okkur sem er annt um sjálfstæði eftirlitsstofnana Alþingis er sú undarlega venja sem hefur skapast að ráðherrar og stjórnvöld, þeir aðilar sem lúta eftirliti Ríkisendurskoðunar, séu stöðugt að biðja stofnunina um að rannsaka hitt og þetta. Þetta háttalag á sér ekki stoð í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016 sem gera þvert á móti ráð fyrir að frumkvæðið komi frá stofnuninni sjálfri eða Alþingi, annaðhvort frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða úr þingsal í formi skýrslubeiðni frá níu þingmönnum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: