- Advertisement -

„Ekkert lát verið á ráðherraræði“

Oddný Harðardóttir segir sérkennilegt að í framtíðarnefnd forsætisráðherra skipaði á sé einn fulltrúi frá hverjum stjórnarandstöðuflokki en tveir frá hverjum stjórnarflokkanna.

Ríkisstjórn hét því að efla Alþingi, hefur það tekist? Miðjan leitaði til formanna allra þingflokka og spurði um efndirnar.

Fyrst til að svara var Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Í sáttmála ríkisstjórnanarinnar segir: „Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í sáttmálanum segir enn fremur: „Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“ Hefur það gengið eftir?

„Þegar spurt er um hvort tekist hafi að efla Alþingi Íslendinga á árinu 2018 er svarið bæði já og nei. Það sem hefur verið gert uppfyllir alls ekki þau fyrirheit sem gefin eru í stjórnsrsáttmálanum,“ svarar Oddný. 
Oddný segir samt ekki allt vera neikvætt: „Starfsmenn þingfundaskrifstofu, undir forystu forseta þingsins, hafa unnið ágætlega að því að auka fyrirsjáanleika í þingstörfunum með skipulagi fram í tímann. Það er sannarlega jákvæð breyting sem kallað hefur verið eftir lengi.“

Og svo þetta: „Þingflokkar hafa verið efldir með fleiri starfsmönnum og auknum möguleikum á sérfræðiaðstoð. Það er afar mikilvægt skref í rétta átt þó að við séum enn eftirbátar þeirra þinga sem við viljum helst bera okkur saman við.“

Er sjálfstæði þingsins, til dæmis gagnvart framkvæmdavaldinu, meira en áður hefur verið?

„Hins vegar hefur ekkert lát verið á ráðherraræði í þingstörfum og komið fram í einsýni stjórnarliða bæði í þingsal og í nefndarstarfi. Nægir að nefna þegar að þvinga átti lækkun á veiðigjöldum í gegn á vorþinginu og síðan vegatollum rétt fyrir jól. Stjórnarandstöðunni tókst að fresta lækkun veiðigjalda en ríkisstjórnin náði sínu fram á haustþinginu. Vegatollar verða væntanlega samþykktir í febrúar fái ríkisstjórnin að ráða. Það er afleitt enda nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina; skattkerfið og þjónustugjöld eins og vegatolla og samspilið þar á milli. Ríkisstjórnin er að leggja til mikla breytingu á fjármögnun vegakerfisins. Ef af henni verður nægir ekki einföld gjaldtaka sem ákveðin landsvæði munu bera uppi, heldur þarf gjaldtakan í það minnsta að vera réttlát og með grænum áherslum. Taka þarf tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðu við útfærsluna ætli ríkisstjórnin að keyra málið í gegn.“

Vitnum aftur í stjórnarsáttmálann: „Auk þess vilja ríkisstjórnarflokkarnir ýta allnokkrum verkefnum úr vör með þverpólitískri nálgun og tryggja þar betur en venja er að sú fjölþætta þekking og reynsla sem þingið býr yfir nýtist í þágu lands og þjóðar óháð því hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga.“


„Nokkrar þverpólitískarnefndir hafa verið stofnaðar, helst um mál sem stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um, s.s. um miðhálendisþjóðgarð, orkustefnu og stjórnarskrá svo eitthvað sé nefnt. Stundum hefur krafan verið einn fulltrúi frá stjórnarandstöðunni sem er augljóslega óviðunandi því stjórnarandstaðan valdi sig ekki saman eins og stjórnarflokkarnir. Hana skipa ólíkir flokkar með ólíkar skoðanir,“ svarar Oddný.

Og: „Það er líka sérkennilegt að mínu áliti að í framtíðarnefnd sem forsætisráðherra skipaði á síðasta ári sé einn fulltrúi frá hverjum stjórnarandstöðuflokki en tveir frá hverjum stjórnarflokkanna. Það gerir forsætisráðherra svo að stjórnarflokkarnir séu með meirihluta í nefndinni. Nefndin á að fjalla um samfélagsbreytingar sem gætu orðið eftir mörg ár, sumar jafnvel eftir tugi ára. Þó að stjórnarandstaðan eigi formann nefndarinnar tryggir forsætisráðherra að stjórnarliðar hafi yfirhöndina og það er undarlegt ef beita á meirihlutavaldi um framtíðarsýn fyrir Ísland og áhrif nýrrar tæknibyltingar. Ég á erfitt með að sjá það fyrir mér hvernig flokkarnir sem nú standa vörð um kyrrstöðu og óbreytt kerfi á flestum sviðum takast á við tæknibyltingu þannig að jöfnuður, velferð og hagur neytenda verðu hafður að leiðarljósi.“

Hvað með eftirlit með framkvæmdarvaldinu?

„Það sér hver maður að afar mikilvægt er að efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og þar er margt ógert. Ég tel að þeir þrír flokkar sem nú skipa ríkisstjórnina, muni alltaf standa vörð um gjörðir ráðherra eins og dæmin hafa sýnt bæði er varðar embættisfærslur dómsmálaráðherra og þá þöggun sem ríkir um viðskiptafærslur fjármálaráðherra og aðila tengda honum fyrir hrun. Ég er því ekki bjartsýn á að það eftirlit sem nú er þó til staðar muni virka.“

Í sáttmálanum segir: „Sátt þarf að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar. Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.“ Þá er spurt, ert þú, þingflokksformaður, sátt/sáttur með niðurstöðu Hvítbókarinnar, sem einhverjir kalla hvítþvott frekar en hvítbók. Er það réttlátur dómur?


„Hvítbókin um bankakerfið hefur ekki komið til umræðu í þinginu en þegar að það gerist þarf að draga fram skarpari áherslur en bókin gerir á framtíðarfjármálakerfi með áherslu á hag neytenda og almenna ódýra greiðslumiðlun. Að tæknin lækki kostnað og bankarnir þjóni fólki og fyrirtækjum en ekki fyrst og fremst sjálfum sér. Við eigum alls ekki að selja hluti í bönkum í ríkiseigu fyrr en við höfum komið okkur saman um hvernig bankarnir eiga að starfa til framtíðar,“ svaraði Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.



Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: