- Advertisement -

Í samtökum með Erdogan

Forysta Sjálfstæðisflokksins elti Íhaldsflokkinn breska af svipuðum ástæðum; til að friða Evrópuskeptíska flokksmenn, einmitt sama hópinn á harmar nú á forystunni vegna 3ja orkupakka Evrópusambandsins.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Gunnar Smári.

Fyrir nokkrum árum ákvað forysta Sjálfstæðisflokksins að elta breska Íhaldsflokkinn út úr samtökum hefðbundinna evrópskra hægriflokka, European People’s Party eða EPP, yfir í nýstofnuð samtök sem kallast Alliance of Conservatives and Reformists in Europe eða ACRE. Í EPP eru íhaldsflokkar Norðurlanda, kristilegri demókratar meginlandsins, Repúblikanar í Frakklandi, Lýðflokkurinn á Spáni og fleiri slíkir flokkar sem mótuðu hvað mest eftirstríðsárastjórnmál álfunnar ásamt sósíaldemókrötum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ástæða þess að breski Íhaldsflokkurinn fann sig ekki lengur í þessum hópi var að þessir flokkar eru allt einarðir stuðningsflokkar Evrópusambandsins en innan Íhaldsflokksins breska höfðu andstæðingar bandalagsins náð miklum áhrifum. Af þeim sökum fundu breskir íhaldsmenn meiri samkennd með Lög og rétti í Póllandi, Réttlætis- og framfaraflokkur Erdogan í Tyrklandi og Sjálfstæðisflokkurinn íslenski.

Þetta er sá hópur sem Sjálfstæðisflokkurinn kaus að tengjast fremur en samtökum hefðbundinna hægri flokka.

Þessir fjórir flokkar, Íhaldsflokkurinn breski, Lög og réttur í Póllandi, flokkur Erdogan og Sjálfstæðisflokkurinn, voru burðarás þessarar samtaka þar sem aðrir flokkar nutu mun minna fylgis heima fyrir en þessir fjórir burðarflokkar. Innan um eru hálf fasískir þjóðernisflokkar; t.d. Þjóðarbandalagið Allt fyrir Lettland – Fyrir föðurland og frelsi; Bræður Ítalíu, Blái umbótaflokkurinn (Klofningur út úr Sönnum Finnum) og fleiri slíkir.

Auk evrópskra flokka hefur ACRE tengsl við flokka í öðrum álfum; t.d. Repúblikana í Bandaríkjunum, kanadíska Íhaldsflokkinn og Likud bandalag Benjamins Netanyahu. Evrópuþingflokkur ACRE kallast ECR eða European Conservatives and Reformists. Innan hans eru þeir flokkar ACRE sem eiga sæti á Evrópuþinginu auk nokkurra annarra flokka sem ekki tilheyra öðrum alþjóðlegum samtökum stjórnmálaflokka. Meðal þeirra eru Sannir Finnar, danski Þjóðarflokkurinn og Svíþjóðardemókratar auk nokkurs fjölda þjóðernissinnaðra flokkar frá löndum Austur-Evrópu.

Þetta er sá hópur sem Sjálfstæðisflokkurinn kaus að tengjast fremur en samtökum hefðbundinna hægri flokka. Þegar breski Íhaldsflokkurinn lagði í þennan leiðangur var það til að friða Evrópuandstæðinga innan flokksins, tiltölulega fámenns hóps sem síðar knúði á um kosningar um Brexit, sem hefur reynst flokknum erfitt mál. Forysta Sjálfstæðisflokksins elti Íhaldsflokkinn breska af svipuðum ástæðum; til að friða Evrópuskeptíska flokksmenn, einmitt sama hópinn á harmar nú á forystunni vegna 3ja orkupakka Evrópusambandsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: