- Advertisement -

Kærumál Semu sent til lögreglustjóra

Ég spurði einnig hvort lögreglan hafi varað við að nota ætti piparúða.

Sema Erla Serdar sendi erindi til eftirlitsnefndar með lögreglu vegna framgöngu lögreglunnar, við mótmæli umsækjenda um alþjóðlega vernd, á Austurvelli.

„Að mati nefndarinnar er samt sem áður tilefni til þess að senda erindi mitt til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar,“ skrifar Sema Erla.

Hér eru skrif hennar um málið:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Þann 11. mars sl. sendi ég tilkynningu á nefnd um eftirlit með lögreglu eftir að hafa orðið vitni að því að lögreglan beitti piparúða á mótmælendur sem saman voru komnir á Austurvelli. Um var að ræða friðsamleg mótmæli umsækjenda um alþjóðlega vernd og stuðningsfólks þeirra. Það var ekki fyrr en lögreglan stillti sér upp og fór að ýta við mótmælendahópnum að til ryskinga kom, sem endaði með því að lögreglan beitti piparúða á mótmælendurna. Ég heyrði lögregluna ekki vara við því og ég sá enga aðstoð fyrir þá sem fengu piparúða yfir sig. Einhverjir voru handteknir og nokkrir særðust í ryskingunum.

Ég óskaði eftir því við nefndina að framferði lögreglu gagnvart mótmælendunum yrði skoðað og óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum, meðal annars um hverjar verklagsreglurnar eru varðandi notkun lögreglu á piparúða, hvort ekki eigi ekki aðstoða þá sem verða fyrir piparúða og hvernig það hafi verið gert í þessu tilfelli. Ég spurði einnig hvort lögreglan hafi varað við að nota ætti piparúða og hvernig hún réttlæti það í þessu tilfelli. Þá spurði ég hvort rétt hafi verið staðið að handtökum og tryggt að mótmælendur skyldu fyrirmæli sem þeir fengu frá lögreglu.

Eftir að hafa tekið erindi mitt til meðferðar og fengið gögn frá lögreglunni ákvað nefndin að taka ekki að svo stöddu afstöðu til þess hvort hefja eigi meðferð máls vegna framkomu lögreglunnar. Að mati nefndarinnar er samt sem áður tilefni til þess að senda erindi mitt til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar. Samkvæmt lögum ber lögreglustjóranum að taka kvörtunina til meðferðar og taka síðan afstöðu til hennar og skila til nefndarinnar sem síðan getur tekið ákvörðun um að hefja meðferð máls eður ei, þá sérstaklega ef um refsiverða háttsemi er að ræða.

Á sama tíma og ég set spurningarmerki við að lögreglan rannsaki sjálfa sig.

Á sama tíma og ég set spurningarmerki við að lögreglan rannsaki sjálfa sig þá fagna ég því að nefndin hafi séð tilefni til þess að senda málið áfram til frekari rannsóknar. Það er mikilvægt að yfirvöld komist ekki upp með ofbeldi gagnvart minnihlutahópum sem eiga erfitt með að verja sig. Ég ber virðingu fyrir lögreglunni og með tilkynningu minni var ég ekki að sækjast sérstaklega eftir því að einhverjum verður refsað, nema framkoma einhvers hafi í raun verið refsiverð.

Með tilkynningu minni vildi ég hins vegar leggja áherslu á að það sé mikilvægt að borin sé sama virðing fyrir öllum og vinnubrögð yfirvalda séu þau sömu óháð því hver á í hlut og að yfirvöld leyfi sér ekki sérstaka hörku þegar um hóp fólks er að ræða sem er í viðkvæmri stöðu, meðal annars gagnvart yfirvöldum, og á þar af leiðandi erfitt með að verja sig og sækja rétt sinn þegar á þeim er brotið. Okkur getur vissulega öllum orðið á og það besta sem við getum gert er að læra af mistökum okkar, biðjast afsökunar og leggja okkur fram við að endurtaka ekki sömu mistökin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: