- Advertisement -

Snöggsoðin greining: Fylgi Miðflokksins á sér nokkrar skýringar

Snöggsoðin greining: Fylgi Miðflokksins á sér nokkrar skýringar

Haukur Arnþórsson.

Haukur Arnþórsson skrifar um nýjustu skoðanakönnun MMR og stöðu Miðflokksins samkvæmt henni:

(i) Flokkurinn styðst við skoðanahernað stórvelda (einkum Rússlands) sem vilja veikja frelsi og frjálslyndi á Vesturlöndum og veikja ESB. Rússarnir gefa úr mikið af vefupplýsingum á vefsetrum sér hliðhollum og við sjáum á hverjum degi tilvitnanir á Stjórnmálaspjalli Margrétar Friðriksdóttur og í Viljanum – í fölsuð rússnesk gögn. Útvarp Saga byggir oft málflutning á þessum gögnum líka og jafnvel þingmenn Miðflokksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta eru mál frá höfnun á loftslagsvá til glæpa innflytjenda, gegn kvenfrelsi – en einkum er hamrað á vantrausti og vænisýki gegn yfirvöldum, auk þjóðernishyggju. Oxford Internet Institut gerði í sept. s.l. grein fyrir skoðanahernaðinum á netinu – og hefur skýrsla þess lítið komið til umræðu á Íslandi, en Þórlaug Ágústsdóttir hefur skrifað um hernaðinn í Kjarnanum.


Skoðanahernaðurinn á netinu er orðinn svo hættulegur að hann ógnar raunverulega lýðræði

Skoðanahernaðurinn á netinu er orðinn svo hættulegur að hann ógnar raunverulega lýðræði á Vesturlöndum, enda er það tilgangur hans. Þjóðaratkvæðagreiðslur koma ekki til greina við þessar aðstæður – öll mál eru afflutt.

(ii) Flokkurinn gerir út á „gamla Ísland“ sem er hrætt við allt nýtt og ekki síst erlent og höfðar þetta mest til gamals fólks – sem ólst upp við að erlent vald og innlendir svikarar meðal stjórnmálamanna reyndu allt til að eyðileggja Ísland (þannig var pólitíkin), hér er átt við baráttuna gegn Dönum, gegn Bandaríkjunum og hernum, gegn Bretum í þorskastríðunum og gegn EES-samningnum. Þetta fólk er hægt að hræða með femínisma, ESB, innflytjendum o.s.frv.

Þessi hluti hræðsluáróðursins getur raunverulega ógnað alþjóðlegri samvinnu Íslands og alþjóðlegum viðskiptum – og þannig beinhörðum hagsmunum almennings.

(iii) Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum, einkum frá Indlandi og Bandaríkjunum, er fátæku fólki og lítið menntuðu, en flokkshollu, sama um spillingu og glæpi fulltrúa sinna. Sérstakt átak hefur verið gert í Indlandi til að hindra að dæmdir glæpamenn – sem eru kjördæmapotarar og lýðskrumarar – séu kosnir þar í landi.

Þetta er ljótt einkenni á mörgum kjósendum hér á landi. Munum að Árni Johnsen og Gunnar Örlygsson voru báðir kosnir á þing eftir að hafa fengið dóma og Sigmundur Davíð eftir að hann kom fram í Panamaskjölunum og lék tveimur skjöldum í kröfunum gegn föllnu bönkunum.


Sá sem minnst veit um stjórnmál telur að nú verði hann að bjarga málunum.

(iv) Þá gerir flokkurinn út á skoðanir hægri öfgamanna í nokkrum málum.

Að öllu samanlögðu virðast samsæriskenningar flokksins um að menntamenn og vísindamenn séu að blekkja einfaldan almenning ganga í fólk (m.a. að vísindamenn haldi fram niðurstöðum í loftslagsmálum til þess að græða á því), að stjórnmálamenn séu að blekkja einfaldan almenning (sitji á svikráðum, sbr. umræðuna um 3ja orkupakkann), að allt sé fullt af hættulegu fólki sem er „handbendi“ hinna og þessara mannkynsóvina (sem er t.d. Soror) – og að ESB sé gegnillt og stefni að því að eyðileggja Evrópu með innflytjendum og að það gíni yfir Íslandi.

Á heildina litið myndar þetta tiltölulega heildstæða heimssýn.

Og þá er eftir að nefna að fátækur og lítið menntaður almenningur telur að hann verði að grípa í taumana. Sá sem minnst veit um stjórnmál telur að nú verði hann að bjarga málunum.

Við sjáum þetta hjá gömlu körlunum á félagsmiðlunum – sem eru að hálfu leyti komnir úr takti við það hvernig nútíminn hugsar og virkar og eru dauðhræddir við allt nýtt. Gaman er að sjá hvað þeir eru hræddir við femínisma – en Miðflokks-mennirnir sönnuðu á Klaustrinu að þeir hata kvenfólk.

Það getur orðið að vinna gegn þessu með viðamikilli fræðslu og með verkefnum eins og unnin voru í Indlandi – til að gera þá sem eru hræddir skaðlausa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: