- Advertisement -

Rýr svör Katrínar við einfaldri spurningu

Af hverju eiga öryrkjar að vera með 70.000 kr. minna á mánuði en láglaunafólk?

Guðmundur Ingi Kristinsson, sem er einn mesti baráttumaður sem hefur setið á Alþingi í langan tíma, gefur ekkert eftir. Hann nýtti nærveru Katrínar Jakobsdóttur í dag. Hann steig í ræðustól og sagði meðal annars:

„Í umræðum um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki ætti að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við orð sín. Fólk í fátækt bíður enn. Þó að forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk um að bíða eftir réttlætinu bíður það enn. Í dag er örorkulífeyrir 70.000 kr. lægri en lágmarkslaun.“

Og síðan kom þetta?

Þú gætir haft áhuga á þessum


Hvað hefur gerst síðan þessi ríkisstjórn tók við?

„Ég spyr forsætisráðherra: Hvernig í ósköpunum er farið að því að reikna út að þessi hópur sé þannig staddur að hann geti og eigi að lifa á 70.000–80.000 kr. minna á mánuði en lægstu laun í landinu eru?“

Katrín reyndi að verjast: „Hann spyr: Hvað er ríkisstjórnin búin að gera? Við skulum fara yfir það fyrir háttvirtan þingmann. Við skulum byrja á að fara yfir þær skattkerfisbreytingar sem verða innleiddar um áramótin og gagnast tekjulágum langbest og skila mestri skattalækkun m.a. til örorkulífeyrisþega og annarra tekjulágra hópa. Við skulum tala um barnafólk í hópi örorkulífeyrisþega. Það hefur verið sýnt fram á nákvæmlega það sem ég hef iðulega rætt hér, að börn öryrkja standa verr. Einmitt þess vegna er ekki bara verið að horfa á skattkerfisbreytingar sem gagnast tekjulágum best heldur líka sérstakar barnabætur sem eru miðaðar að tekjulágum. Ræðum um greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra í heilbrigðiskerfinu. Hvað hefur gerst síðan þessi ríkisstjórn tók við? Jú, það hafa verið stigin markviss skref á hverju ári til að draga úr greiðsluþátttöku, kostnaði þessa fólks við að sækja sér læknisþjónustu, m.a. til heilsugæslunnar núna síðast. Þar er verið að stíga raunveruleg skref og stefnt að því að kerfið okkar verið í ætt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.“

Ekkert svar við spurningu Guðmundar Inga. Katrín hélt áfram:


Það er þessi ríkisstjórn sem er loksins að draga úr þeim skerðingum.

„Horfum síðan til þeirra 4 milljarða kr. á ársgrunni sem verið er að setja inn í þetta kerfi til þess að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega sem hefur verið þeirra stóra baráttumál. Hver er að bregðast við því? Hver er að bregðast við þeirri kröfu eftir margra ára baráttu gegn þeim skerðingum? Það er þessi ríkisstjórn sem er loksins að draga úr þeim skerðingum. Og ég er ekki einu sinni byrjuð að ræða hvað er verið að gera til að styrkja félagslega húsnæðiskerfið. Skiptir það máli fyrir tekjulágt fólk almennt? Já. Skiptir það máli fyrir örorkulífeyrisþega? Svo sannarlega. Við eigum ekki að stilla tekjulágum hópum upp hverjum á móti öðrum. Það eigum við ekki að gera. Við eigum að horfa til þess hvernig við getum aukið jöfnuð í samfélaginu. Allar þessar aðgerðir sem ég nefndi munu skipta máli fyrir tekjulágt fólk og gera líf þess betra.“

Þá kom Guðmundur Ingi í ræðustól, ósáttur.

„Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svörin sem voru frekar rýr. Hún svaraði ekki spurningunni: Af hverju eiga öryrkjar að vera með 70.000 kr. minna á mánuði en láglaunafólk? Það breytir engu, allt sem hún taldi upp kemur láglaunafólkinu líka til góða. En þarna liggur munurinn, hann er 70.000 kr. og fer upp í 86.000 kr.“

Enn reyndi Katrín að þæfa málið.


En þarna liggur munurinn, hann er 70.000 kr. og fer upp í 86.000 kr.

„Háttvirtur þingmaður ræddi hér sérstaklega kjör öryrkja. Ég fór yfir nokkrar af þeim aðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hefur gripið til til að bæta þau kjör og þær eiga ekki allar við um alla þá sem eru með lágar tekjur; ekki þegar kemur að greiðsluþátttökunni, svo að dæmi sé tekið, ekki þegar kemur að því að draga úr skerðingum, svo að dæmi sé tekið. Það breytir því hins vegar ekki að verkefninu er ekki lokið. Samkvæmt hefðinni, samkvæmt lögunum, er ýmist vísað í neysluvísitölu eða launavísitölu sem hv. þingmaður vísar hér til. Verkefninu er auðvitað ekki lokið. Mikið var gert til þess á sínum tíma, þegar kerfisbreyting fyrir aldraða var færð í lög árið 2016, að örorkulífeyrisþegar og aldraðir færu inn í sama kerfi. Það gekk ekki eftir. Nú hefur starfshópur á vegum hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra skilað af sér ákveðnum sviðsmyndum í þeim málum og að sjálfsögðu er sú kerfisbreyting öll eftir þar sem við færum örorkulífeyriskerfið í betra horf en það er í í dag. Það er auðvitað næsta forgangsverkefni, myndi ég segja.“

Sýnilegt er að öryrkjum verður áfram haldið langt undir lágmarkslaunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: