- Advertisement -

Vond ríkisstjórn í frábæru landi

„Ætli það endurspeglist ekki í því að þjóðin er misheppin með þingmenn.“

„Við búum í ríku landi, ríku af auðlindum og gæðum. Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði í Kryddsíld Stöðvar tvö fyrir rétt um þremur árum, þá sem nú með ríkisfjármálin á sínu borði, að það þyrfti náttúrlega einhverja geðveiki til að sjá ekki hvað þetta land væri frábært sem við byggjum á. Þetta er svo sannarlega frábært land sem við búum yfir, við erum rík þjóð sem hefur staðið sig frábærlega á mörgum sviðum en þessi gæfuríka þjóð hefur verið misheppin með ríkisstjórnir þegar kemur að því að viðhalda mikilvægum innviðum okkar,“ sagði Helga Vala Helgadóttir í þingræðu.

Bjarni Benediktsson svaraði og sagði: „Háttvirtur þingmaður segir okkur misheppin með ríkisstjórnir. Ætli það endurspeglist ekki í því að þjóðin er misheppin með þingmenn.“

Helga Vala og Bjarni voru að skiptast á skoðunum um framlag til heilbrigðismála.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Hela Vala:
Nú hefur hæstvirtur fjármálaráðherra fengið staðfest að hvorki fleiri né færri en 21 Evrópuríki leggur hærra framlag til heilbrigðismála.

Helga Vala:

„Í raun má segja að þetta sé frábært land og mögnuð þjóð þrátt fyrir misgæfulegar ríkisstjórnir. Hvað erum við að tala um? Samkvæmt glænýrri skýrslu OECD um heilbrigðismál er það staðfest sem fagfólk og fjöldi annarra hefur haldið fram um árabil, við setjum alls ekki nægt fé til heilbrigðismála. Það hefur verið um það fjallað að víða skorti fé í heilbrigðiskerfið en með þessari skýrslu sjáum við það svart á hvítu að samanborið er framlag til heilbrigðismála hér á Íslandi fjarri því sem þekkist í kringum okkur og órafjarri Norðurlöndum, sem við viljum svo gjarnan bera okkur saman við. Með leyfi forseta vil ég vitna í hæstvirtan fjármálaráðherra sem sagði aðspurður að það væri „eitthvað að kerfi sem tekur sífellt við stórauknum fjármunum en lendir viðstöðulaust í rekstrarvanda“. Nú hefur hæstvirtur fjármálaráðherra fengið staðfest að hvorki fleiri né færri en 21 Evrópuríki leggur hærra framlag til heilbrigðismála. Við erum undir meðaltali ríkjanna, sem er 8,8% af vergri landsframleiðslu, því að við leggjum einungis til 8,3%. Ríku þjóðirnar, öll Norðurlöndin, Þýskaland og fleiri, leggja um 10–11% af landsframleiðslu.

Ég spyr hæstvirtan fjármálaráðherra: Getur ekki verið að það sem sé að þessu kerfi hér á Íslandi sé ríkisstjórn sem þegar á hólminn er komið er kannski ekkert sérlega flink í að forgangsraða verkefnum og afla nauðsynlegra tekna?

Bjarni Ben:
Það er þjónustan og gæði hennar en ekki hlutfall af vergri landsframleiðslu sem öllu skiptir.

Bjarni svaraði: „Háttvirtur þingmaður segir okkur misheppin með ríkisstjórnir. Ætli það endurspeglist ekki í því að þjóðin er misheppin með þingmenn. En við erum með lýðræðisfyrirkomulag sem hefur gengið vel og skarar fram úr öllum öðrum fyrirkomulögum við að koma saman stjórn í landi. Hér gerir hv. þingmaður heilbrigðismálin að umtalsefni og hlutfall vergrar landsframleiðslu til heilbrigðismála á Íslandi. Ég segi: Það er ekki algildur mælikvarði á gæði heilbrigðismála í einu landi. Í fyrsta lagi erum við með gott heilbrigðiskerfi á Íslandi. Við veitum góða þjónustu, við erum með framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk, við veitum þjónustu úti um allt land, við bjóðum lyf og aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem jafnast á við það besta sem gerist. Og, já, það er á alla mælikvarða gott að búa á Íslandi. Við mælumst framar öðrum þjóðum í jöfnuði og almennt í lífshamingju. Þar er um að ræða fjölbreytta flóru mælikvarða sem hver um sig sýnir Ísland ávallt meðal þeirra þjóða sem skara fram úr í hópi þjóðanna.

Hvers vegna er verg landsframleiðsla ekki algildur mælikvarði á framlög til heilbrigðismála? Ég ætla að nefna eitt. Við Íslendingar erum ung þjóð og það er línulegt samband á milli aldurs þjóðar og þarfar fyrir framlög til heilbrigðismála. Eftir því sem þjóðir eru yngri, þeim mun minni er þörfin fyrir framlög til heilbrigðismála, og öfugt, eftir því sem fleiri eru komnir á efri ár, þeim mun meiri er þörfin. Þegar leiðrétt er fyrir þessu birtist allt önnur mynd en sú sem hv. þingmaður dregur upp og segir okkur vera undir meðaltali OECD-ríkjanna. Að sjálfsögðu verðum við að horfa til þessara þátta en við eigum ekki bara að horfa til þeirra, við eigum að spyrja okkur hversu sátt við erum við þjónustuna. Það er þjónustan og gæði hennar en ekki hlutfall af vergri landsframleiðslu sem öllu skiptir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: