- Advertisement -

Heimsmet í óréttlæti

Alþingi Framsóknarþingmennirnir Karl Garðarsson og Elsa Lára Arnardóttir og Steingrímur J. Sigfússon tókust á um þá fullyrðingu Oddnýjar G. Harðardóttur í Sprengisandi á sunnudaginn, þar sem hún sagði að tekjuhæstu þrjatíu prósent fái um fimmtíu milljarða vegna skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar og þau tekjulægstu fái aðeins tíunda hluta á við þá tekjuhæstu.

Villandi framsetning

Karl var fyrstur til að ræða þetta. Hann sagði; „…þegar ágætur vinur minn og háttvirtur þingamaður Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, fullyrti í fjölmiðlum að tekjuhæsti þriðjungur þjóðarinnar hefði fengið í sinn hlut rúma 50 milljarða út úr skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar. Það er fjarri sanni. Í fyrsta lagi er framsetningin villandi því í útreikningana eru teknir þeir sem eru í hlutastörfum, í námi eða hreinlega ekki á vinnumarkaði þannig að sett er saman í einn pott og reiknað út frá því. Eini raunhæfi samanburðurinn er að skoða tekjudreifingu þeirra 74 þús. aðila sem er með verðtryggð húsnæðislán. Þetta eru þeir sem urðu fyrir forsendubresti.

Staðreyndirnar eru þessar: 60% heimila sem fengu leiðréttingu voru með 8 milljónir eða minna í árstekjur, eða sem samsvarar 670 þús. kr. á mánuði. Stærsti hluti leiðréttingarinnar fór til heimila með árstekjur undir 4 millj. kr. Vinstri stjórnin beitt sér fyrir svokallaðri 110%-leið. Þar fengu þeir 1.250 einstaklingar sem mest fengu að meðaltali 21 millj. kr. hver í sinn hlut, 21 milljón. Þeir 1.250 einstaklingar sem fengu mest í aðgerð núverandi ríkisstjórnar fengu að meðaltali 3,5 millj. kr. í sinn hlut. 21 millj. kr. frá fyrri ríkisstjórn, 3,5 millj. kr. frá þessari. Ég ætla ekki einu sinni að tala um þá einstaklinga sem fengu tugmilljónir kr. út úr 110%-leið Steingríms Sigfússonar. Gagnrýni á leiðréttingu núverandi kemur því úr hörðustu átt frá þeim sem settu heimsmet í óréttlæti. Heimsmet í óréttlætri dreifingu fjármuna.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Elsa Lára tók undir með Karli.

 Fáfræði eða ósvífni

Steingrímur J. Sigfússon svaraði þeim Willum og Elsu Láru. „Ég hafði nú ætlað mér að tala um það hvernig ríkisstjórnin er að mínu mati háskalega nærri því að keyra út af brautinni í efnahagsmálum, en ég get ekki annað en mótmælt þessari fáheyrðu framsetningu framsóknarmanna á útkomu svonefndrar 110%-leiðar. Þetta er þvílík steypa sem hér er borin á borð að það hálfa væri nóg. Það er með endemum að leggja að jöfnu fjáraustur úr ríkissjóði til fólks sem er í stórum stíl sannarlega ágætlega efnað fyrir og eykur þar með auð sinn, við það sem gert var í 110%-leiðinni. 110%-leiðin var bæði eigna- og tekjutengd. Hún snerist um að færa niður kröfur á fólki sem var í bullandi yfirveðsettum eignum og átti ekki aðrar eignir á móti því að þær voru dregnar frá. Það var meira að segja gagnrýnt hversu hart t.d. Íbúðalánasjóður gekk fram í því að tína til allar aðrar eignir og lækka niðurfærsluna sem þeim nam. Hvað segir þetta um þá sem fengu þær háu fjárhæðir sem þingmenn Framsóknarflokksins veifa? Þeir voru í bullandi yfirveðsettu húsnæði og áttu engar eignir áttu engar eignir. Og hvað fengu þeir, háttvirtur þingmaður Karl Garðarsson? Þeir fengu ekki neitt. Bankar og lífeyrissjóðir felldu niður skuldir vegna þess að viðkomandi voru gjaldþrota og skuldirnar þar af leiðandi væntanlega óinnheimtanlegar. Þess vegna gátu lífeyrissjóðir m.a. réttlætt þátttöku sína í aðgerðinni. Eða halda menn að talsmenn lífeyrissjóðanna hefðu farið að gefa óviðkomandi aðilum peninga af innheimtanlegum kröfum? Nei, það var ekki þannig.

Að bera þetta saman við aðgerðina nú sýnir því annað hvort alveg ótrúlega fáfræði eða ósvífni nema hvorttveggja sé. Þetta eru algerlega ósambærilegir hlutir og eiga ekkert skylt, það liggur í eðli máls. Og ef háttvirtir þingmenn Framsóknarflokksins vilja halda þessu áfram, forseti, þá er ég meira en reiðubúinn í þá rökræðu. Tökum almennilega rökræðu um þetta. Þið eruð búin að halda nóg af steypu að þjóðinni og lofa henni vitleysu undanfarin ár.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: