Á mannúð heima á þingi? Þannig er fyrirsögn maagnaðrar greinar sem Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði:

„Það blasir við að stjórnarandstaða landsins er málefnalega gjaldþrota. Ráðvillt grípur hún hvert tækifæri til að höggva í starfsama ríkisstjórn, ráðherra hennar og þingmenn án þess nokkurn tímann að leiða hugann að því hvort hún gæti hugsanlega verið að skaða sjálfa sig í leiðinni. Það er eiginlega stórmerkilegt að stjórnarandstaðan skuli ekki átta sig á því hversu illa hún er að leika sjálfa sig. Hún er versti óvinur sjálfs sín.
Skoðanakannanir sýna síðan glöggt hversu lítinn hljómgrunn hún á meðal þjóðarinnar. Erindisleysi hennar blasir við almenningi enda hefur hún ekkert fram að færa annað en óbærileg leiðindi.
Vissulega er ekki hægt að ætlast til að þingmenn séu skemmtilegir og glaðir í sinni en þegar fýlan lekur stöðugt af þeim hættir fólk að nenna að fylgjast með þeim.
Fjölmargir urðu því til að slá skjaldborg um Oscar.
Nýlega hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks eytt mikilli orku og dágóðum tíma í að atast í þingmanni Samfylkingarinnar vegna framgöngu hans í máli hins sautján ára gamla kólumbíska Oscars Bocanegra. Í langan tíma hefur þjóðin fylgst með máli Oscars, sem þráir að fá að búa hér á landi í öruggu skjóli ástríkra fósturforeldra. Til stóð að vísa honum úr landi. Brottvísun Oscars hefði verið kaldlynd og grimm ákvörðun, siðferðilega óverjandi.
Fjölmargir urðu því til að slá skjaldborg um Oscar.
Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjarnefndar Alþingis, hefur fengið yfir sig holskeflu af skömmum frá stjórnarandstöðunni vegna aðkomu sinnar að máli Oscars.
Hann upplýsti forstjóra Útlendingastofnunar um að yfirgnæfandi líkur væru á því að Oscar fengi íslenskan ríkisborgararétt og því væri engin ástæða til að vísa honum úr landi til þess eins að sækja hann þangað þegar umsókn hans hefði verið samþykkt.
Einstaklingur sem réttir öðrum hjálparhönd á ekki að þurfa að réttlæta þá gjörð sína. Víðir Reynisson á skilið þakklæti, ekki skammir. Þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa gagnrýnt hann virðast því miður ekki kunna að skammast sín. Málstaður þeirra er ansi aumur.
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa meðal annars talað um geðþóttaákvörðun, forréttindi og VIP-röð, sem er fjarska einkennilegt í máli sem varðar varnarlausan unglingspilt sem á ekki skjól annars staðar en hér á landi. Ofureðlilegt er að augu manna beinist að honum og örlögum hans. Mál hans er einstakt og því er fullkomlega réttlætanlegt að það fái sérstaka meðferð.
Ekki er verra að þingmenn taki það að sér.
Það er einmitt það sem fjölmargir báðu um í mótmælum Oscari til stuðnings. Fólki finnst það einfaldlega vera mannúðarmál að leyfa honum að búa hjá íslenskum fósturforeldrum sínum.
Getur verið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks þyki mannúð ekki eiga heima á þingi? Þar eigi köld rökhyggja að ríkja og brýnt sé að hafna hvers konar tilfinningasemi enda sé hún veikleikamerki og grafi undan stjórnsýslunni?
Staðreyndin er sú að kerfi geta verið ómanneskjuleg, köld og hörð, og þá er nauðsynlegt að hafa kjark til að veita viðnám. Ekki er verra að þingmenn taki það að sér. Þeir eiga ekki, frekar en við hin, að bugta sig og beygja fyrir köldu valdi sem telur ekki vera pláss fyrir mannúð og gengur jafnvel svo langt að vilja taka unglingspilt frá fósturforeldrum sínum og henda honum úr landi. Við erum fjölmörg sem viljum ekki búa í landi þar sem stjórnkerfið virkar á þennan hræðilega vonda veg.
Pistlahöfundur þykist nokkuð viss um að innan Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sé lögð áhersla á kristin gildi. Samt er eins og flokkarnir hafi gleymt boðskapnum um náungakærleik, sem er nokkuð óheppilegt því Kristur lagði einmitt ofuráherslu á hann.
Framganga Sjálfstæðisflokks og Miðflokks undanfarna mánuði hefur verið þannig að fagna ber því að þjóðin hafði vit á því í síðustu kosningum að halda þeim frá völdum.“