- Advertisement -

Afkoma stórútgerða er langt umfram veiðigjaldið sem skilað er til þjóðarinnar

„Íslendingar hafa allt frá því að byggð komst á hér á landi byggt afkomu sína á sjávarútvegi. Fiskveiðiauðlindin er þannig ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs og samfélags. Þótt fjölbreytni atvinnulífs hafi aukist mikið á síðastliðnum áratugum er fiskveiðiauðlindin enn ein stærsta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Eins og segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar, auk þess sem greinin áréttar að enginn geti öðlast eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum á grundvelli úthlutunar þeirra samkvæmt lögunum,“ sagði Píratinn Gísli Rafn Ólafsson í þingræðu.

„Þótt þróun mála á sviði eignarhalds í sjávarútvegi hafi verið með þeim hætti að fáir sterkir aðilar hafi öðlast yfirburðastöðu má ekki gleyma þeim hugmyndafræðilega grundvelli sem ætti að byggja alla stefnumörkun og ákvarðanatöku á þegar kemur að þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar,“ sagði hann.

Veiðigjald ætti þannig alltaf að fela í sér sanngjarnt gjald frá þeim sem hagnýtir auðlindina til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar. Staðreyndin er því miður sú að það hefur ekki tekist. Almenningur í landinu hefur horft á stórfyrirtækin byggja upp fjármuna- og valdablokkir sínar með arði af fiskveiðiauðlindinni og gjaldið til þjóðarinnar bliknar í samanburði við arðgreiðslurnar sem rata í vasa eigenda þessara stórútgerða. Grundvöll gjaldheimtunnar fyrir þessa notkun auðlindarinnar er að finna í lögum um veiðigjald, sem sett voru árið 2018. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð frumvarps til laga um veiðigjald var meginmarkmið þess að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að veiðigjöld taki tillit til afkomu sjávarútvegsins. Lögin leystu af hólmi eldri lög um sama efni frá 2012, en veiðigjöld hafa verið tekin allt síðan árið 2002. Þrátt fyrir að yfirlýst meginmarkmið nýrra laga um veiðigjöld, sem sett voru árið 2018, hafi verið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar þá virðist sem það hafi mistekist.“

„Raunar virðist sem svo að afkoma stórútgerðanna sé langt umfram það gjald sem skilað er til eiganda auðlindarinnar,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: