- Advertisement -

Boðar vantraust á forsætisráðherra

„Forsætisráðherra manar menn upp í vantrauststillögu. Hún kemur,“ sagði þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson, Pírati á Alþingi fyrr í dag.

„Eftir þrjár vikur eru nú þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar í vanda,“ sagði Björn Leví.

En hvaða ráðherrar eru þetta og hver er vandi þeirra?

Björn Leví nefndi Björt Ólafsdóttur umhvefisráðherra. Hann sagði hana eiga „…eftir að mæta í ræðustól Alþingis og útskýra villandi svar sitt við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur um tilmæli til nefndar sem heyrir undir ráðherra.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Gott og vel, einn ráðherra kominn, hverjir eru hinir sem eru í vanda? Þogerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra, hún þarf, að því er Björn Leví, sagði að mæta í ræðustól Alþingis og útskýra af hverju hún hótaði sjómönnum lögum á verkfall þeirra. „Það er ekkert fagnaðarefni þegar samningar nást undir slíkum hótunum og afarkostum, sérstaklega þegar ráðherra var búinn að segja að ekki yrði gripið til lagasetningar. Það er ekki hægt að gleyma hótuninni og horfa bara fram hjá því sem ráðherra sagði og ýjaði að í máli sínu í óundirbúnum fyrirspurnum í gær. Svona vinnubrögð eru gerræðisleg og grafalvarleg og ráðherra þarf að útskýra mál sitt.“

Þá eru tveir komnir, en hver er þá sá þiðji, Bjarni Benediktsson?

„Forsætisráðherra varð uppvís að því að leyna almenning upplýsingum og þegar upp komst um það reyndi hann að ljúga til um að upplýsingarnar hefðu ekki verið tiltækar fyrr en þing var farið heim. Feluleikurinn og lygin eru alvarlegt trúnaðarbrot, ekki bara við þingið heldur við þjóðina alla.“

Björn Leví rifjaði upp að í sérstökum umræðum um málið á þriðjudag bauð hann forsætisráðherra að svara spurningum um hvort upplýsingarnar vörðuðu almannahag og hvort ráðherra hefði brotið siðareglur. Ráðherra skautaði fram hjá þeim spurningum þrátt fyrir ítrekanir um að svara þeim. „Þó viðurkenndi ráðherra, með leyfi forseta: Ég hef aldrei í tengslum við þessa skýrslu lagt mat á hvort einhver efnisatriði umfram önnur vörðuðu almannahag. Það stóð aldrei neitt annað til en að hún kæmi fyrir almenningssjónir.“

Björn Leví sagði Bjarna hafa viðurkennt að hafa ekki athugað hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag með tilliti til frumkvæðisskyldu sinnar um birtingu slíkra upplýsinga. „Forsætisráðherra manar menn upp í vantrauststillögu. Hún kemur.“ Fyrst þarf forsætisráðherra að svara þessum spurningum í ræðustól Alþingis: Varða upplýsingarnar í skýrslunni sem hann faldi almannahag og braut ráðherra siðareglur? Ellegar er það vantraustsvert í sjálfu sér að ráðherra víki sér ítrekað undan því að svara spurningum sem til hans er beint á Alþingi,“ sagði þingmaðurin Björn Levi Gunnarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: