- Advertisement -

Ansi margt líkt með Alþingi og Samherja

Kristján Þór er málaður sem engill, algjörlega fyrir opnum tjöldum.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Hvað er líkt með Samherja og Alþingi? Það er ansi margt. Til dæmis sjá þau sjálf um að rannsaka eigin gjörðir og hegðun. Það voru sjálfstæðismennirnir Brynjar Níelsson, sem elskar kvótakerfið, og Óli Björn Kárason, sem elskar það líka, sem ákváðu að hvítþvo flokksbróður sinn, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, af öllu sem varðar Samherja. Hann er bara orðinn eins og hver annar engill og á engan hátt tengdur Samherja. Óli Björn og Brynjar ákváðu þetta með Kolbeini Óttarssyni Proppé Vg og Líney Önnu Sævarsdóttur og Þórunni Egilsdóttir, Framsókn.

Þeir sem eru með einhverjar réttlætis-og siðferðiskennd á Alþingi eru að sjálfsögðu ekki sáttir við þessa niðurstöðu. „Og meirihlutinn sem sagt rannsakar sjálfan sig og kemst að því að það sé ekkert athugavert við stjórnarhætti síns ráðherra. Það er auðvitað ekki trúverðug niðurstaða, það verður að segjast eins og er,“ segir Þórhildur Sunna Pírati.

Og svo tengist sukkið hjá Samherja svínarínu á Alþingi.

Auðvitað er þetta út úr öllu korti. Sukkið og svínarið sem viðgengst á Alþingi er grafalvarlegt mál. Það er líka sukkið og svínarið hjá Samherja. Og svo tengist sukkið hjá Samherja svínarínu á Alþingi, því auðkýfingarnir hjá stórútgerðarfyrirtækjunum stjórna alþingismönnum leynt og ljóst. Það er nú eitt málið enn sem þarf að rannsaka ofan í kjölinn.

En sumt er svo augljóst að það þarf ekki einu sinni að rannsaka það. Kristján Þór er málaður sem engill, algjörlega fyrir opnum tjöldum. Bara eins og ekkert sé sjálfsagðar. Spillingin er svo yfirgengileg. Og engin segir neitt, nema benda kannski á eitthvað, eins og Þórhildur Sunna. En hvers vegna í ósköpunum voru ekki fengnir óháðir aðilar til að fara ofan í mál Kristjáns og Samherja? Auðvitað af því að það er svo óþægilegt. Gæti orðið vond niðurstaða fyrir Kristján. Hann hefði þá jafnvel þurft að segja af sér. En hann vill það ekki. Sjálfstæðisflokkurinn, með stuðningi Vg og Framsókn, vill það ekki heldur. Og alls ekki Samherji. Enda finnst Samherjamönnum það standast öll siðferðisviðmið að sjá sjálft um að rannsaka eigin gjörðir, eins og í Namibíumálinu.

Þetta er absúrd og enginn önnur skýring til.

Það líka hafið yfir allan grun að sterk staða Samherja innan stjórnkerfisins er ástæðan fyrir því að hvorki gengur né rekur í rannsókninni á Samherjamálinu. Þetta er absúrd og enginn önnur skýring til en að markmiðið sé að láta þessa rannsókn ganga seint og illa. Og á meðan er erfingjum Þorsteins Más og co færð fiskveiðiauðlind þjóðarinnar á silfurfati.

Almenningur veit þetta. En virðist ekki alveg átta sig á því hvað þetta er alvarlegt. Enda er fólk heilaþvegið af fjölmiðlum auðvaldsins á hverjum einasta degi, alla daga ársins og ár eftir ár. Stórútgerðarmönnum og öðrum auðmönnum á Íslandi munar ekkert að punga út milljarða svo þeir geti viðhaldið heilaþvottinum. Þannig sjá þeir hagsmunum sínum best borgið. Svo þeir geti haldið áfram að græða. Mest á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: