- Advertisement -

Atvinnurekendur út úr lífeyrissjóðunum

Ég myndi segja að ástandið í dag sé hættulegt.

„Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum, tillögu Flokks fólksins, sem er, held ég, krafa þeirra sem eiga og borga í lífeyrissjóði, krafa sem þeir hafa gert lengi, um að þeir einir hafi vald til að stjórna sjóðunum. Það er eiginlega stórfurðulegt að enn skuli vera þetta kerfi, að þeir sem borga í lögþvingaðan eignaupptökuvarinn sparnað hafi minnst með það að gera hvernig farið er með þá fjármuni. Við höfum víti til varnaðar. Við getum tekið hrunið sem dæmi, hvernig fór með lífeyrissjóðina í hruninu. Á verðlagi dagsins í dag töpuðust örugglega vel á annað þúsund milljarðar,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi.

„Ég myndi segja að ástandið í dag sé hættulegt að mörgu leyti vegna þess að svo rosalegir fjármunir safnast inn í sjóðina og þeir eru eiginlega farnir að eiga í öllum fyrirtækjum sem eitthvað kveður að í landinu. Þeir eru farnir að kaupa í sjálfum sér, liggur við, og eru þar af leiðandi ekki bara á móti hver öðrum við borðið heldur allan hringinn í kringum borðið að því leyti að atvinnurekendur eru með ótrúleg völd í þessum sjóðum. Í sjóðunum starfa einstaklingar sem hafa þar völd og fjárfesta á sama tíma jafnvel í fyrirtækjum sem þeir eiga. Það er eiginlega galið og stórfurðulegt að það skuli viðgangast enn þann dag í dag.

Það er líka annað í þessu sem hefur fylgt því að atvinnurekendur eru með alla þessa stjórn á lífeyrissjóðunum, það er þessi gígantíski rekstur þeirra sem kominn er örugglega vel á annan eða jafnvel þriðja tug milljarða. Þarna eru ótrúlega háar launagreiðslur og þeir sem eiga sjóðina og borga í þá hafa ekkert með það að gera hvernig þetta fer fram, hversu margir stjórna þessu, hvernig launastrúktúrinn er og annað, þeir hafa engin áhrif. Þetta er alveg stórfurðulega uppbyggt kerfi.

Hvað var síðan gert við Fjármálaeftirlitið?

Annað í þessu, sem sýnir okkur svart á hvítu hvernig kerfið virkar eða virkar ekki, er Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið var á sínum tíma sérstök stofnun. Það var fyrir hrun og einhvern veginn tókst Fjármálaeftirlitinu ekki að veita bönkunum aðhald, ekki lífeyrissjóðunum, ekki tryggingafélögum eða neinu, heldur virtist bara vera einhver áhorfandi. Hvað var síðan gert við Fjármálaeftirlitið? Hvar er það í dag? Jú, ég tel að það sé orðið bara skúffa í Seðlabankanum. Ég varð steinhissa um daginn og sagði upphátt að Fjármálaeftirlitið hefði kíkt upp úr skúffunni. Allt í einu rumskaði það við eitthvert tal um rafmynt, eða bitcoin. Fjármálaeftirlitið kíkti á það og sagði að engar reglur væru um slíkt og hvarf ofan í skúffuna aftur, í staðinn fyrir að senda aðvörun á þingið um að þarna væri einhver peningur sem ekki væri fylgst með. Ég tel að á sama tíma og atvinnurekendur fara út úr lífeyrissjóðnum þurfum við að stórefla Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið þarf og á að koma fram, sérstaklega núna þegar verið er að tala um að selja bankana. Hvert er verið að tala um að selja bankana? Jú, til lífeyrissjóðanna. Könnumst við við þetta frá síðustu bankasölu?

Áfram skulu ákveðnir kóngar fá að stjórna lífeyrissjóðunum.

Það er margt að varast en ég held að það væri þjóðráð að þessi tillaga kæmist í gegnum þingið. En því miður held ég að það sé ekki nokkur leið vegna þess að fjórflokkurinn virðist vera búinn að sjá til þess að kerfið sé varið með öllum tiltækum ráðum. Það virðist ekki skipta máli hvaða ríkisstjórn hefur komist til valda undanfarið. Kerfið er varið og þar á allt að vera óbreytt. Áfram skulu ákveðnir kóngar fá að stjórna lífeyrissjóðunum, skammta sér laun og hafa launastefnu eins og þeim hentar, kaupa í þeim fyrirtækjum sem þeim hentar. En ef það kemur svo einföld krafa um að lífeyrissjóðirnir verði notaðir í fjárfestingu til að byggja íbúðir fyrir félagsmenn þá ætlar allt að ganga af göflunum. Þá er sagt að það sé sko langt því frá að það sé tilgangur lífeyrissjóðanna að byggja fyrir þá sem eiga þá svo þeir geti eignast húsnæði og þurfi ekki að vera á leigumarkaði eða enn verr staddir. Nei, það má ekki vegna þess að þeir eiga að vera hagnaðardrifnir. Og hvað þýðir það? Jú, það þýðir að þeir þurfa að fá 3,5% ávöxtun. Hvað þýðir það? Jú, ávísun á verðbólgu, ávísun á að vextir og annað keyri upp verðbólgu. Við erum með hæsta kostnað vegna íbúðakaupa á Norðurlöndunum a.m.k, jafnvel í Evrópu, en Covid hefur þvingað þetta niður stöðuna eins og hún er í dag. En þetta verður allt óbreytt þegar Covid verður farið og þá verður engin breyting á.

Hvað rökstyður að þau eigi að hafa öll völd?

Ég spyr: Hvað rökstyður það Samtök atvinnulífsins geti verið með menn í stjórn og verið með völd í þessum sjóðum án þess jafnvel að borga krónu í sjóðinn fyrir sjálf sig, heldur bara vegna þess að þau borga viðkomandi launamönnum laun og þurfa þar af leiðandi að borga lögþvingaðan, eignaupptökuvarinn sparnað inn í sjóðinn? Hvað rökstyður að þau eigi að hafa öll völd? Þau segja að þau hafi ekki öll völd heldur hafi bara sex á móti sex. En hvað þýðir það? Sex á móti sex þýðir að ef verkalýðshreyfingin ætlar að reyna af litlum mætti að koma með einhverjar tillögur inn þá fellur það á jöfnu. Þannig hefur það verið og þannig er það núna að það eru atvinnurekendurnir sem stjórna í þessum sjóðum. Þeirra eru völdin og hafa verið. Ég vona heitt og innilega að valdatíð þeirra sé að ljúka og að þetta frumvarp nái fram að ganga og að við sjáum fram á bjartari tíma og sjáum til þess að þeir sem eiga þetta fái atkvæðisrétt, fái að stjórna þessu. Ég er alveg sannfærður um að það verður mun betri útkoma, bæði fyrir þá sem eiga þetta og fyrir hagkerfið í heild sinni. Á sama tíma vona ég að það nái fram að ganga sem við mæltum fyrir í dag, að inngreiðslur í lífeyrissjóði verði skattlagðar og að við sjáum til þess að koma hlutum í lag. Þá erum við í fínum málum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: