- Advertisement -

Bæjarstjórnin breytt í saumaklúbb

Sjálfstæðisflokkurinn hér í bæ ræður því sem hann vill ráða.

Ragnar Sverrisson skrifar:

Þá hefur bæjarstjórnin okkar hér á Akureyri loks breyst í raunverulegan saumaklúbb þar sem forðast er að tala um stefnur og baráttumál flokka og framboða og framkvæmd þeirra. Þar með er pólitík endanlega úthýst á þeim bæ og tryggt að ekkert raski ró bæjarfulltrúa næstu misseri. Miðað við þróun mála í bæjarstjórn undanfarið þarf tilkynning um nýjan „meirihluta“ ekki að koma nokkrum manni sem fylgst hefur með bæjarmálum á óvart. Þess vegna sætir fréttin um þetta málefni í hádeginu litlum tíðindum, hún er aðeins staðfesting á því sem ég og fleiri hafa sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hér í bæ ræður því sem hann vill ráða. Gildir þá einu hvort hann er í meirihluta eða ekki – vilji hans drottnar yfir öllu eins og þó nokkur stórmál í bæjarstjórn undanfarna mánuði sanna. Sjálfstæðismenn gefa tóninn og forystulaus meirihlutinn hefur ekki kjark til annars en að spila með.

Til þess að réttlæta þessa „þjóðstjórn“ hefur veiran voðalega verið virkjuð og henni kennt um allt saman ásamt kjarasamningum sem allir vissu um. Ekki virðist gamla meirihlutanum hafa hugkvæmst að þenja út brjóstkassann og nýta þetta tækifæri til að hefja nýja og þróttmikla sókn til uppbyggingar í bænum eins og mörg önnur bæjarfélög gera. Nei, þess í stað þykir betra að hjúfra sig endanlega að íhaldinu og hlusta enn frekar eftir hvað það vill eða vill ekki. Það er svo fjarskalega notalegt.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: