- Advertisement -

Biðja guð að blessa Costco

 

Marinó G. Njálsson.
„Almenningur má bara hafa það skítt.“

Þau ósköp dundu yfir þjóðina á vordögum, að opnuð var verslun, þar sem ekki var okrað á vöruverði. Hefur landslýður, m.a. forsætisráðherra vor, tekið þessari nýjung fagnandi, en jafnframt með mikilli furðu. Hafa landsmenn enda alist upp við það frá tímum dönsku einokunarverslunarinnar, að kaupmenn eigi allan rétt á að okra á viðskiptavinum sínum og beita öllum brögðum til að hafa af fólki meiri aur, en réttlætt er.

Ekki eru þó allir alteknir af sömu gleðinni. Hefur þetta gengið svo langt, að ákveðinn hluti landsmanna er að farast úr meðaumkun með kaupahéðnum og fjársýslumönnum, sem munu nú sjá á eftir ofurhagnaði sínum og arðgreiðslum og þurfa líklegast í framtíðinni að sætta sig við hagnað sambærilega þeim, sem þekkist í siðuðum þjóðfélögum. Afsaka þeir okur þeirra með ótrúlegustu rökum, en best eru líklegast þau, að á einhverju þurfi þeir að lifa. Aðrir vilja kenni krónunni um, en henni er kennt um öll mannanna verk, ekki mönnunum sjálfum. Er það þrátt fyrir að upplýst hefur verið hvernig kaupahéðnarnir og fjársýslumennirnir hafa makað krókinn feitt í mannsaldur eða tvo og fært fé, sem haft var íslenskum almenningi, í erlend skattaskjól.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vitundarvakning lands er löngu tímabær. Fólk hefur þó allan varann á sér, því það er vant því, að böggull fylgi skammrifi. „Er á meðan er,“ hugsa flestir og biðja guð í bænum sínum, að blessa Costco. Hefur samt bak við eyrað, að síðast þegar það fékk svona kjarabót, þá hækkaði Seðlabankinn vexti sína, því hann vildi taka kjarabótina af almenningi. Á Íslandi má almenningur nefnilega bara hafa það skítt.

Marinó G. Njálsson skrifaði greinina í morgun og birti á Facebooksíðu sinni.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: