- Advertisement -

Erindislausir á Alþingi

„Margt fánýtt hefur í gegnum tíðina verið rætt undir liðnum störf þingsins, en sennilega aldrei fánýtara en sl. miðvikudag,“ þannig byrjar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins Staksteina dagsins.

Í skotlínu ritsjórans eru tveir þingmenn Viðreisnar, samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins. Þeir Pawel Bartoszek og Jón Steindór Valdimarsson.

„Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, ræddi mörgum orðum um sætaskipan í sal þingsins og hvernig mætti útfæra hugmyndir hans í þeim efnum. Var það mikið furðutal. Það tal átti þó enga möguleika í vinningshafa dagsins, Jón Steindór Valdimarsson, sem náði þeim árangri að tala bókstaflega um ekki neitt.“

Davíð skrifar áfram: „Ræða Jóns Steindórs hófst á þessum orðum: „Frú forseti. Það voru áhöld um hvort ég ætti yfir höfuð að vera í þessum ræðustól. Í morgun, skömmu eftir átta, barst mér tilkynning um það að ég hefði verið númer 27 í röð háttvirtra þingmanna að komast hér á mælendaskrá. Síðan fóru nú einhverjir vísir menn að skoða málið nánar og þá kom í ljós að allmargir af þeim sem á undan mér voru á skránni höfðu tilkynnt sig inn laust fyrir klukkan átta. Var gerð við þetta athugasemd sem endaði með því að öllu var raðað upp á nýtt og ég þurfti að fara að undirbúa að nýju hvað ég ætlaði að tala um.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jón Steindór hafði sem sagt pantað púltið án þess að hafa nokkuð að segja. Niðurstaða hans eftir vangaveltur um hvað hann ætti að tala um var „að tala um þetta, um störf þingsins“.“

Ritstjórinn, sem að auki er einn helsti áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, skýtur fast að samstarfsmönnum flokksins. Vissulega að gefnu tilefni. Hann gefur ekki mikið fyrir framgöngu þeirra félaga í Viðreisn, hann endar Staksteina með þessari setningu:

„Er nokkur leið að eiga minna erindi á þing?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: